Afturelding varð fyrst liða til þess að vinna ÍR í Grill 66-deild kvenna í handknattleik á tímabilinu þegar liðin mættust í Skógarseli í kvöld. Mosfellingar voru mikið sterkari á lokaspretti leiksins og skoruðu fimm síðustu mörkin og unnu með fimm marka mun, 28:23. ÍR jafnaði metin, 23:23, þegar tíu mínútur voru til leiksloka.
Þar með munar aðeins tveimur stigum á ÍR og Aftureldingu í tveimur efstu sætum deildarinnar, ÍR í vil. Afturelding á hinsvegar leik til góða. Ljóst er að sigurinn hleypir mikilli spennu í toppbaráttu Grill 66-deildarinnar. Grótta er skammt á eftir með 14 stig. Stöðuna er að finna hér.
Fyrir leikinn í kvöld hafði ÍR-liðið leikið níu leiki án taps, unnið átta en gert eitt jafntefli.
Staðan var jöfn eftir fyrri hálfleik, 13:13, eftir frumkvæðið hafði heldur verið ÍR-megin lengst af. Í síðari hálfleik var mikil spenna í leiknum. Liðin skiptust nánast á að vera marki yfir allt þar til á síðustu tíu mínútunum þegar Aftureldingarliðinu tókst að sýna mátt sinn og megin.
Mörk ÍR: Sylvía Sigríður Jónsdóttir 6, Karen Tinna Demian 5, Matthildur Lilja Jónsdóttir 4, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 2, Hanna Karen Ólafsdóttir 2, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 1, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 1, Guðrún Maryam Rayadh 1, Guðrún Maryam Rayadh 1.
Varin skot: Hildur Öder Einarsdóttir 16.
Mörk Aftureldingar: Sylvía Björt Blöndal 13, Susan Ines Gamboa 5, Katrín Helga Davíðsdóttir 4, Anna Katrín Bjarkadóttir 3, Brynja Rögn Fossberg Ragnarsdóttir 1, Katrín Erla Kjartansdóttir 1, Lovísa Líf Helenudóttir 1.
Varin skot: Mina Mandic 11.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deild kvenna.
Fyrr í kvöld vann Grótta liðsmenn Fjölnis/Fylkis.