Valur og Afturelding hrósuðu sigrum í fyrstu leikjum Ragnarsmóts kvenna í handknattleik í Sethöllinni á Selfossi í kvöld þegar mótið hófst 35. árið í röð. Valur lagði Selfoss með níu marka mun, 32:23, en Afturelding lagði Stjörnuna, 29:26, í fyrri viðureign kvöldsins. Næstu leikir mótsins verða háðir í Sethöllinni á miðvikudagskvöldið.
Selfoss veitti Val harða keppni í liðlega 45 mínútur í kvöld. Íslandsmeistararnir voru með fjögurra marka forskot eftir fyrri hálfleik, 14:10. Upphafskafli síðari hálfleiks var hinsvegar eign Selfossliðsins sem var með jafna stöðu, 19:19, þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Þá losnaði aðeins um hnútana, Valur tók af skarið og vann örugglega.
Hafdís Renötudóttir, Lovísa Thompson og Thea Imani Sturludóttir voru ekki í leikmannahópi Vals að þessu sinni.
Saga Sif sterk á lokakaflanum
Leikur Stjörnunnar og Aftureldingar var jafn lengst af og liðin skiptust á að vera marki yfir allt þar til á síðustu mínútunum að Mosfellingar stungu sér fram úr. Munaði þar miklu um frammistöðu Sögu Sifjar Gísladóttur markvarðar sem kom til félagsins í sumar frá Val. Annar nýr liðsmaður Aftureldingar, línumaðurinn Stefanía Ósk Engilbertsdóttir, fór einnig á kostum og skoraði þrjú síðustu mörk liðsins.
Eins og í leik Stjörnunnar við HK í UMSK-mótinu í síðustu viku þá náði Embla Steindórsdóttir sér vel á strik í liði Stjörnunnar.
Stjarnan – Afturelding 26:29 (13:14).
Mörk Stjörnunnar: Embla Steindórsdóttir 6, Anna Karen Hansdóttir 4, Eva Björk Davíðsdóttir 4, Helena Rut Örvarsdóttir 4, Vigdís Arna Hjartardóttir 3, Hanna Guðrún Hauksdóttir 2, Stefanía Theodórsdóttir 2, Anna Lára Davíðsdóttir 1.
Varin skot: Elísabet Millý Elíasardóttir 6.
Mörk Aftureldingar: Susan Ines Gamboa 8, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 7, Hildur Lilja Jónsdóttir 3, Anna Katrín Bjarkadóttir 2, Brynja Rögn Fossberg Ragnarsdóttir 2, Ragnhildur Hjartardóttir 2, Sylvía Björt Blöndal 2, Drífa Garðarsdóttir 1, Hrafnhildur Hólm Guðnadóttir 1, Lovísa Líf Helenudóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 14.
Selfoss – Valur 23:32 (10:14).
Mörk Selfoss: Harpa Valey Gylfadóttir 6, Katla María Magnúsdóttir 6, Perla Ruth Albertsdóttir 6, Hulda Hrönn Bragadóttir 2, Arna Kristín Einarsdóttir 1, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 1, Katla Björg Ómarsdóttir 1.
Varin skot: Cornelia Hermansson 4.
Mörk Vals: Elín Rósa Magnúsdóttir 7, Mariam Eradze 6, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5, Lilja Ágústsdóttir 4, Hildigunnur Einarsdóttir 3, Morgan Marie Þorkelsdóttir 3, Auður Ester Gestsdóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 2
Varin skot: Arna Sif Jónsdóttir 3, Sara Sif Helgadóttir 3.
2. umferð á miðvikudag
Kl. 18: Stjarnan – Valur.
Kl. 20: Selfoss – Afturelding.
Minnt er á að Selfoss TV stendur vaktina á Ragnarsmótinu eins og venjulega undir styrkri stjórn Árna Þórs Grétarssonar. Selfoss TV er að finna á youtube.