Afturelding gerði út um leikinn við Stjörnuna í kvöld á síðustu 15 mínútunum og vann með sex marka mun, 32:26, í upphafsleik 16. umferðar Olísdeildar karla að Varmá í kvöld. Staðan var jöfn, 11:11, eftir afar slakan og lítt minnistæðan fyrri hálfleik þegar leikmenn beggja liða voru einstaklega illa upplagðir.
Heldur skánaði leikurinn í síðari hálfleik þótt seint verði sagt að um minnistæðan leik hafi verið að ræða. Áfram var jafnt á metunum. Um miðjan síðari hálfleik náði Afturelding tveggja marka forskoti. Leikmenn liðsins náðu að hrista Stjörnumenn af sér en það hafði gengið afar illa að ná forskotinu upp í tvö mörk. Varnarleikur Mosfellinga batnaði og Brynjar Vignir Sigurjónsson mætti á vaktina í markinu og varði mikilvæg skot, þar á meðal vítakast. Jafnt og þétt dró af leikmönnum Stjörnunnar um leið og Aftureldingarmönnum óx ásmegin.
Birgir Steinn Jónsson var besti maður Aftureldingar í leiknum. Hann skoraði níu mörk og átti fimm stoðsendingar. Ihor Kopyshynskyi nýtti sín færi einnig og var gaman að sjá fjölbreytta skottækni hans.
Blær Hinriksson lék ekki með Aftureldingu vegna meiðsla.
Daníel Karl Gunnarsson vakti athygli í Stjörnuliðinu fyrir lipra takta. Adam Thorstensen var góður í markinu í fyrri hálfleik en náði sér ekki á flug í þeim síðari.
Annars vantar nokkuð inn í lið Stjörnunnar. Starri Friðriksson missti af öðrum leiknum í röð vegna meiðsla. Einnig var Þórður Tandri Ágústsson fjarverandi eins og í undanförnum leikjum. Egill Magnússon virðist einnig vera meiddur þótt hann sæti á varamannabekknum að þessu sinni.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Aftureldingar: Birgir Steinn Jónsson 9, Ihor Kopyshynskyi 6, Þorsteinn Leó Gunnarsson 6, Árni Bragi Eyjólfsson 4/1, Jakob Aronsson 3, Stefán Magni Hjartarson 2, Brynjar Vignir Sigurjónsson 1, Þorvaldur Tryggvason 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 8, 29,6% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 4/1, 36,4%.
Mörk Stjörnunnar: Daníel Karl Gunnarsson 6, Hergeir Grímsson 5/1, Pétur Árni Hauksson 4, Sigurður Jónsson 3, Jón Ásgeir Eyjólfsson 3, Tandri Már Konráðsson 3, Benedikt Marinó Herdísarson 2.
Varin skot: Adam Thorstensen 12, 36,4% – Sigurður Dan Óskarsson 1, 9,1%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.