- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Afturelding vann á Hlíðarenda – leikur til úrslita við FH

Alexander Örn Júlíusson, Tjörvi Týr Gíslason, Aron Dagur Pálsson, Val, og blær Hinriksson, Aftureldingu. Ljósmynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Afturelding leikur um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla við FH. Það liggur fyrir eftir að Aftureldingarliðið lagði Val, 29:27, í æsispennandi fjórðu viðureign liðanna í undanúrslitum í N1-höll Vals í kvöld. Afturelding vann þrjár viðureignir af fjórum.

Valur var þremur mörkum yfir eftir fyrri hálfleik, 14:11. Valsmönnum tókst hinsvegar ekki upp sem skildi í síðari hálfleik og máttu bíta í það súra epli að sjá Mosfellinga fagna á Hlíðarenda.

Úrslitaleikir framundan

Valsmenn geta þar með einbeitt sér að úrslitaleikjunum tveimur í Evrópubikarkeppninni sem eru fyrir höndum næstu tvo laugardaga.

Eftir því sem næst verður komist verður fyrstu úrslitaleikur FH og Aftureldingar í Kaplakrika á sunnudagskvöld.

Virtist stefna í endurtekið efni

Framan af leiknum í kvöld virtist stefna í að Valur ætlaði að rúlla yfir Aftureldingu. Björgvin Páll varði eins og berserkur og félagar hans skoruðu eftir hraðaupphlaup. Að loknum 17 mínútum var staðan 11:5, Val í vil. Eftir leikhlé Aftureldingarmanna skoruðu þeir fjögur mörk í röð án þess að leikmenn Vals fengju rönd við reist. Mosfellingar komust inn í leikinn aftur og ekki spillti fyrir að Brynjar Vignir Sigurjónsson varði allt hvað af tók og gaf Björgvini Páli ekkert eftir. Aftureldingarliðinu hafði nærri tekist að minnka muninn í eitt mark skömmu fyrir hálfleik. Þess í stað voru Valsmenn með lánið með sér og fóru með þriggja marka forskot inn í hálfleikinn, 14:11.

Skoruðu fyrstu þrjú mörkin

Afturelding hóf síðari hálfleik af krafti og skoraði þrjú fyrstu mörkin og jafnaði metin, 14:14. Eftir það var leikurinn í járnum lengi vel. Mikil spenna og hraði en ólíkt fyrri hálfleik þá náðu markverðirnir sér lítt á strik.

Blær kom Aftureldingu yfir

Blær Hinriksson kom Aftureldingu í fyrsta sinn yfir í leiknum, 22:21, þegar 11 mínútur voru til leiksloka. Eftir það var byrinn í seglum Afturreldingar sem komst þremur mörkum yfir, 26:23. Valsmenn reyndu hvað þeir gátu undir lokin en tókst aðeins að minnka muninn í eitt mark. Nær komust þeir ekki.

Valsmenn geta nagaði sig í handarbökin vegna ýmissa atriða. Þeir misstu vænlega stöðu í fyrri hálfleik niður. Mistökin voru of mörg, ekki síst í síðari hálfleik. Þess utan datt botninn úr markvörslunni.

Slæmt ástand?

Því miður virðist ástandið á leikmannahópi Vals eftir leikinn ekki vera gott. Magnús Óli Magnússon fékk slæma byltu. Róbert Aron Hostert virðist meiddur á öxl auk þess sem Ísak Gústafsson virtist glíma við meiðsli. Fleiri eru vafalítið laskaðir.

Baráttuglaðir Mosfellingar uppskáru eins og þeir sáðu til. Þeir misstu ekki móðinn í slæmri stöðu í fyrri hálfleik og áttu mjög góðan leik í síðari hálfleik.

Mörk Vals: Tjörvi Týr Gíslason 5, Benedikt Gunnar Óskarsson 5/2, Agnar Smári Jónsson 3, Vignir Stefánsson 3, Viktor Sigurðsson 2, Magnús Óli Magnússon 2, Ísak Gústafsson 2, Alexander Peterson 2, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 1, Allan Norðberg 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 17/4, 37%.

Mörk Aftureldingar: Ihor Kopyshynskyi 9, Blær Hinriksson 5/1, Birgir Steinn Jónsson 5, Jakob Aronsson 4, Þorsteinn Leó Gunnarsson 3, Birkir Benediktsson 2, Árni Bragi Eyjólfsson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 13/1 38,2% – Jovan Kukobat 2, 25%.

Handbolti.is var á Hlíðarenda og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -