Afturelding vann stórsigur á ungu og lítt reyndu liði Selfoss í annarri umferð Olísdeildar karla í handknattleik að Varmá í kvöld, 37:21. Að loknum fyrri hálfleik var munurinn níu mörk, 19:10, Aftureldingarmönnum í vil sem hafa þar með krækt í sín fyrstu stig í deildinni.
Á brattann að sækja
Ef að líkum lætur gæti liðið tími þangað til Selfossliðið hreppir vinning. Meiðsli halda áfram að hrjá leikmenn. Þórir Ólafsson þjálfari Selfoss tefldi fram 14 leikmönnum að þessu sinni, þar af þremur markvörðum. Uppistaða Selfossliðsins í kvöld voru leikmenn sem skipuðu ungmennalið félagsins á síðasta ári. Eiga þeir enn talsvert í land áður en þeir standa sterkari liðum deildarinnar, eins og Aftureldingu, snúning.
Langur listi
Sem fyrr segir þá lengist meiðslalistinn hjá Selfossliðinu fremur en hitt. Einar Sverrisson, Elvar Elí Hallgrímsson og Sveinn Andri Sveinsson voru fjarverandi í kvöld og munaði sannarlega um minna. Einar er tognaður á kvið, Sveinn Andri tognaður á nára og Elvar Elí sleit krossband á dögunum. Fleiri eru fjarverandi vegna meiðsla og Þórir því ekki öfundsverður um þessar mundir.
Brynjar fór á kostum
Aftureldingarmenn gáfu ekkert eftir í leiknum. Þeir léku af fullum krafti til loka. Brynjar Vignir Sigurjónsson varði eins og berserkur í síðari hálfleik og létti leikmönnum Selfoss ekki róðurinn.
Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar nýtti tækifærið þegar á leið síðari hálfleik til að gefa lítt reyndari leikmönnum kærkomið tækifæri.
Leikjadagskrá Olísdeilda.
Mörk Aftureldingar: Blær Hinriksson 6, Ihor Kopyshynskyi 6, Þorsteinn Leó Gunnarsson 5, Birgir Steinn Jónsson 4, Leó Snær Pétursson 3, Þorvaldur Tryggvason 3, Jakob Aronsson 3, Árni Bragi Eyjólfsson 2/1, Andri Þór Helgason 2, Stefán Magni Hjartarson 1, Böðvar Páll Ásgeirsson 1, Gísli Rúnar Jóhannsson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 11, 50% – Jovan Kukobat 5, 33,3%.
Mörk Selfoss: Hans Jörgen Ólafsson 7, Tryggvi Sigurberg Traustason 4, Gunnar Kári Bragason 2, Alvaro Mallols Fernandez 2, Sæþór Atlason 2, Richard Sæþór Sigurðsson 1, Jason Dagur Þórisson 1, Haukur Páll Hallgrímsson 1, Hannes Höskuldsson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 6, 25% – Vilius Rasimas 5, 20,8%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum að Varmá í textalýsingu hér fyrir neðan.