Igor Kopyshynskyi leikmaður bikarmeistara Aftureldingar í handknattleik karla hafnaði í áttunda sæti með löndum sínum í úkraínska landsliðinu á Evrópumótinu í strandhandbolta sem lauk í Nazaré í Portúgal í dag. Úkraínska landsliðið tapaði í hádeginu í dag fyrir Króötum í leiknum um sjöunda sæti mótsins, 2:0 í hrinum talið (26:14, 22:20).
Igor fór á kostum á mótinu og varð fjórði markahæsti leikmaður mótsins með 119 mörk. Fyrir vikið var hann tilnefndur sem einn þeirra leikmanna sem valið stóð um þegar kosið var um úrvalslið mótsins. Igor hlaut ekki brautargengi kosningunni.
Ungverjar urðu Evrópumeistarar eftir sigur á Þjóðverjum í úrslitaleik. Danir lögðu Portúgala í viðureign um bronsverðlaun. Sextán landslið tóku þátt í mótinu sem hófst snemma í síðustu viku.
Þýska landsliðið var Evrópumeistari í kvennaflokki. Hollendingar hrepptu silfrið og Spánverjar bronsverðlaun.