Ágúst Elí Björgvinsson er ekki lengur markvörður danska úrvalsdeildarliðsins Ribe-Esbjerg. Félagið tilkynnti í dag að samkomulag hafi orðið um að slíta samningnum nú þegar. Ágúst Elí er þar með laus mála hjá danska úrvalsdeildarliðinu. Samningur Ágústs Elís við Ribe-Esbjerg átti að renna út næsta sumar.
Águst Elí sagði í svari við skilaboðum til handbolta.is að hann væri ekki með samning við annað lið í hendi. Vonir hans standi til þess að fljótlega komi í ljós hvað taki við.
Ágúst Elí gekk til liðs við Ribe-Esbjerg sumarið 2022 að lokinni tveggja ára veru hjá KIF Kolding. Hann var markvörður IK Sävehof frá 2018 til 2020 en var þar áður um árabil markvörður uppeldisfélags síns, FH.
Engin tækifæri
Ágúst Elí hefur ekkert fengið að spreyta sig með Ribe-Esbjerg á leiktíðinni. Hann hóf leiktíðina sem lánsmaður hjá meistaraliðinu Aalborg Håndbold hvar Ágúst Elí hljóp í skarðið fyrir Niklas Landin. Eftir að Ágúst Elí sneri til baka úr láni frá Ribe-Esbjerg þá í fyrri hluta október hefur hann ekki fengið tækifæri hjá félaginu.
Ágúst Elí var einn þriggja markvarða íslenska landsliðsins í vináttuleikjunum við Þýskaland í byrjun þessa mánaðar.





