Aldís Ásta Heimisdóttir hélt upp á nýjan samning við Skara HF með því að fara fyrir liðinu í sigri á IK Sävehof í fyrsta úrslitaleik liðanna um sænska meistaratitilinn á heimavelli í kvöld, 26:25. Aldís Ásta skoraði sex mörk og gaf fimm stoðsendingar.
Fyrir troðfullri keppnishöllinni, 1.150 áhorfendur, var tilkynnt skömmu fyrir leikinn að Aldís Ásta hafi skrifað undir nýjan samning til eins árs við Skara HF. Hún hefur verið hjá Skara HF frá 2022.
Tíðindin fóru vel í Aldísi og samherja, svo ekki sé talað um stuðningsmennina. Skara liðið fór á kostum á upphafsmínútunum og skoraði sex fyrstu mörk leiksins. Leikmenn Sävehof vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Þjálfarinn tók leikhlé í stöðunni, 3:0. Allt kom fyrir ekki, 6:0 og 7:1.
Skara HF var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 13:9. Leikmenn Sävehof tóku sig saman í andlitinu í hálfleik og léku mikið betur í síðari hálfleik. Sävehof tókst að minnka muninn í eitt mark, 19:18. Nær komst liðið ekki. Skara hélt frumvæðinu allt til leiksloka. Þetta var 20. sigurinn í 21 leik síðan Rasmus Overby tók við þjálfun Skara í desember.
Næsti leikur fer fram í Partille Arena á föstudaginn.
Skara HF, sem varð deildarmeistari í vor, hefur aldrei áður komist í úrslit um sænska meistaratitilinn.