Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði sigurmark Skara HF í fyrstu viðureign liðsins við Kristianstad HK í átta liða úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Tíu sekúndum fyrir leikslok skoraði Akureyringurinn 30. mark Skara og innsiglaði eins marks sigur, 30:29, í hnífjöfnum leik deildarmeistaranna og liðsins sem hafnaði áttunda sæti, Kristianstand HK.
Aldís Ásta skoraði níu mörk í leiknum og var markahæst hjá Skara HF.
Berta Rut Harðardóttir skoraði eitt mark fyrir Kristianstad en Jóhanna Margrét Sigurðardóttir komst ekki á blað markaskorara liðsins að þessu sinni.
Næsti leikur liðanna verður í Kristianstad á föstudaginn og þriðji leikurinn í Skara á sunnudaginn. Vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í undanúrslit. Komi til fimm leikja verður síðasta viðureignin sunnudaginn 6. apríl.
Í hinni viðureign kvöldsins í átta liða úrslitum vann Skuru IK lið Västeråslrsta HF, 29:27, á heimavelli.
Sjá einnig: Þetta er stórt fyrir Skara – hugur í Aldísi Ástu – úrslitakeppni á næsta leiti