Alfreð Gíslason mætir galvaskur til leiks í milliriðlum Evrópumóts karla í handknattleik með sveit sína eftir sigur á Spáni, 34:32, í hörkuleik í Jyske Bank Boxen í Herning í kvöld. Þjóðverjar hrepptu þar með efsta sæti A-riðils og fara áfram ásamt Spánverjum. Þýskaland byrjar með tvö stig í milliriðli og þar af leiðandi öll tromp á hendi.
Serbar sitja eftir með sárt ennið. Þeir töpuðu fyrir Austurríki í kvöld og mega huga að heimferð í fyrramálið ásamt leikmönnum austurríska landsliðsins.
Mikið var gert út af mistökum og tapi Þjóðverja fyrir Serbum á sunnudagskvöldið og var talið að Alfreð væri valtur í sessi á miðju móti. Öll umræða í þá veru féll niður eftir sigurinn í kvöld og mesti vindurinn úr úrtölumönnum, alltént í bili.
Þýska liðið lék afar vel og var með yfirhöndina frá upphafi til enda.
Renārs Uščins var markahæstur í þýska liðinu með átta mörk. Julian Köster, lærisveinn Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá Gummersbach, var næstur með sex mörk.
Marcos Fis, Ian Tarrafeta og Aleix Gómez skoruðu fjögur mörk hver fyrir spænska landsliðið.
Frakkar áfram með fullt hús
Evrópumeistarar Frakka fara áfram með tvö stig úr C-riðli. Þeir lögðu Norðmenn í Bærum, í nágrenni gamla flugvallarins í Fornebu, 38:34, í kvöld í uppgjöri tveggja efstu liðanna. Franska liðið var þremur mörkum yfir í hálfleik, 20:17.
Hugo Descat var markahæstur í franska liðinu með sex mörk. Yanis Lenne var næstur með fimm mörk ásamt Dylan Nahi.
Sander Sagosen skoraði níu mörk fyrir Noreg og Kevin Gulliksen var næstur með átta mörk.
Svíar fylgja Króötum
Svíar komust í milliriðla í kvöld. Þeir lögðu Georgíumenn örugglega, 38:29, í Malmö í síðari leik kvöldsins í E-riðli. Lið Georgíu veitti mótspyrnu framan af í fyrri hálfleik en varð að játa sig sigraða.
Svíar og Króatar eru efstir í riðlinum með fjögur stig fyrir lokaumferðina á miðvikudagskvöld. Georgía og Holland eru án stiga.
Giorgi Tskhovrebadze var markahæstur hjá Georgíu með 11 mörk. KA-maðurinn Giorgi Dikhaminjia skoraði þrjú mörk.
Felix Claar og Nikola Roganović skoruðu sex mörk hvor og voru markahæstir hjá Svíum.
Landslið Svíþjóðar og Króatíu verða þar með ásamt Íslandi og Ungverjalandi í milliriðli tvö. Annað kvöld skýrist hvort Færeyingar eða Svisslendingar fylgja Slóvenum eftir úr D-riðli í milliriðil tvö.





