Alfreð Gíslason og leikmenn þýska landsliðsins fögnuðu sigri í fyrsta leik milliriðlakeppni EM karla í handknattleik í kvöld. Þjóðverjar lögðu Portúgala, 32:30, í spennuleik í Jyske Bank Boxen. Þýska liðið hefur þar með tvo vinninga en Portúgal einn í riðlinum en um sannkallaðan fjögurra stiga leik var um að ræða.
Portúgalar sóttu hart að þýska liðinu allan síðari hálfleik. Þjóðverjar voru með eins til tveggja marka forystu undir lokin. Martím Costa minnkaði muninn í eitt mark fyrir Portúgal þegar 12 sekúndur voru eftir af leiktímanum, 31:30. Renārs Uščins innsiglaði sigur á síðustu sekúndu.

Heitt í kolunum
Pablo Pereira þjálfari Portúgal var hoppandi reiður og sagði að síðasta mark Þjóðverja hafi aldrei átt að standa vegna þess að a.m.k. einn Þjóðverji hafi verið inni á vallarhelmingi Portúgala þegar miðjan var tekin eftir síðasta mark Portúgal. Hvert mark getur skipt máli verði lið jöfn að stigum eftir milliriðlakeppnina.
Dómarar leiksins nýttu sér ekki tæknina til þess að taka af allan vafa um að miðjan hafi verið lögleg.
Hætt er við að framganga Pereira dragi dilk á eftir sér en honum var mjög heitt í hamsi.
Þýski línumaðurinn Johannes Golla fékk rautt spjald í leiknum fyrir ljótt brot á Francisco Costa og á hugsanlega yfir höfði sér leikbann. Aganefnd EM hefur verið afar ströng og úrskurðað nokkra leikmenn í eins til tveggja leikja bann fyrir gróf brot.
Schluroff og Costa bræður
Miro Schluroff var markahæstur í þýska liðinu með átta mörk. Fyrrnefndir Uščins var næstur með sjö mörk og Nils Lichtlein skoraði fimm mörk.
Francisco Costa skoraði 10 mörk og var markahæstur í portúgalska liðinu. Bróðir hans Martím var næstur með sex mörk og línumaðurinn Luís Frade skoraði fimm sinnum.



