Þýska landsliðið, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, ruddi úr vegi fyrstu hindrun sinni á leiðinni að keppnisrétti á Ólympíuleikunum í sumar þegar það vann landslið Alsír í upphafsleik undankeppnisriðils tvö í Hannover í kvöld. Lokatölur 41:29 fyrir Þýskaland sem var með þriggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 16:13.
Alsírbúar héldu Þjóðverjum við efnið í fyrri hálfleik þótt Þjóðverjar væri með tögl og hagldir. Á upphafsmínútum síðari hálfleiks tókst Alsíringum að minnka muninn í tvö mörk. Nær komust þeir ekki. Flóðgáttir opnuðust og þýska liðið raðað inn mörkum og vann öruggan 12 marka sigur.
Renars Uscins, sem lék vel með þýska landsliðinu á EM í janúar, kunni vel við sig á leikvellinum í Hannover að þessu sinni. Hann skoraði 10 mörk og var markahæstur. Á eftir kom Johannes Golla eða sjö mörk og Julian Köster með fimm.
Ayyoub Abdi skoraði átta mörk fyrir lið Alsír og var markahæstur. Messaoud Berkousvar næstur með sex mörk.
Forkeppni ÓL24, karlar: Leikir, úrslit, staðan
Fyrsti leikur Dags
Klukkan 19.15 hefst viðureign Króata og Austurríkismanna sem eru með Þjóðverjum og Alsírbúum í riðli í Hannover. Þetta verður fyrsti landsleikur Króata undir stjórn Dags Sigurðssonar.
Hægt verður að fylgjast með leiknum í streymi á handbolti.is eins og viðureign Þýskalands og Alsír fyrr í dag.