- Auglýsing -
- Auglýsing -

Alfreð segir Ísland verða í hópi sterkustu liða HM

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik karla segist ekki reikna við því að þýska landsliðið vinni til verðlauna á heimsmeistaramótinu sem hefst 11. janúar í Póllandi og Svíþjóð. „Það má láta sig dreyma og sannarlega væri gaman að vinna til verðlauna. Ég á ekki von á verðlaunum þar sem lið nokkurra annarra þjóða eru líklegri,“ segir Alfreð í samtali við Deutsche Presse-Agentur. Nefnir hann m.a. íslenska landsliðið.


Spurður segir Alfreð að Danir og Svíar, Frakkar, Spánverjar, Norðmenn og Íslendingar séu um þessar mundir með sterkari lið en Þjóðverjar og þar af leiðandi líklegri til afreka á heimsmeistaramótinu.

Stefnan er á átta liða úrslit

Alfreð segist í upphafi leggja mikla áherslu á að vinna leikina í riðlakeppninni. Þýska liðið verður með Alsír, Katar og Serbíu í riðli á mótinu. „Afar mikilvægt er að taka eins mörg stig með og mögulegt er inn í milliriðlakeppnina vegna þess að við ætlum okkur að komast í úrsláttarkeppnina [átta liða úrslit]. Ef lið misstíga sig í riðlakeppninni getur verið ómögulegt að bæta fyrir það þegar lengra líður á mótið. Þess vegna skiptir riðlakeppnin miklu máli,“ segir Alfreð og bætir við að miklu máli skipti fyrir þýska liðið að ná góðum árangri á HM, ekki síst í ljósi þess að EM að ári liðnu verður haldið í Þýskalandi.


Alfreð segir ennfremur að góður andi ríki innan þýska landsliðsins um þessar mundir. Samstaða leikmanna sé mikil og góðar vonir ríki um að liðið haldi áfram að taka skref framfara.

Vonar að gæfan verði með í liði

Þýska landsliðið var mjög illa fyrir barðinu á covid á EM fyrir ári síðan en ekki færri en 18 úr hópnum smituðust af veirunni sem skiljanlega kom verulega niður árangrinum. Alfreð segir að nú þegar covid er ekki lengur ógn vonist hann eftir að gæfan verði með liði sínu og að leikmenn sleppi við alvarleg meiðsli, ekki síst þeir sem bera uppi varnarleikinn. Eins og oft áður þá skipti varnarleikur og markvarsla miklu máli til að árangur náist á stórmótum.

Þýska landsliðið, eins og það íslenska, kemur saman á morgun til formlegs undirbúnings fyrir HM. Liðin mætast í tveimur vináttuleikjum í Bremen og Hannover 7. og 8. janúar.

Fyrsti leikur þýska landsliðsins á HM verður gegn Katar í Katowice föstudaginn 13. janúar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -