„Við förum til Tókýó til þess að leika eins og vel og kostur er á, stefnan er sett á verðlaun,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari þýska karlalandsliðsins í handknattleik við þýska fjölmiðla eftir að hann valdi 17 leikmenn til æfinga fyrir Ólympíuleikana sem hefjast eftir rétt rúmar þrjá vikur. Þar af eru tíu leikmenn sem voru í þýska liðinu sem vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum fyrir fimm árum í Ríó en þá var Dagur Sigurðsson við stjórnvölinn hjá Þjóðverjum.
Alfreð segir það hafa verið erfitt að raða saman hópnum en það hafi tekist og nú hafi hann í höndunum vaskan hóp leikmanna sem getur náð langt.
Af 17 leikmönnum taka 14 þátt í leikunum auk þess sem heimilt er að hafa einn leikmann til að grípa í. Fimmtándi maðurinn verður þó að búa utan við Ólympíuþorpið og verður ekki kallaður inn nema að brýn nauðsyn verður á. Keppnishópar handknattleiksliða á Ólympíuleikum eru fámennari en á öðrum stórmótum.
Uwe Gensheimer verður fyrirliði.
Alfreð tók síðast þátt í Ólympíuleikum með íslenska landsliðinu árið 1988. Þá voru leikarnir haldnir í Seoul í Suður-Kóreu.