Ekki aðeins kætast Íslendingar yfir sigri Vals í Evrópubikarkeppninni og þeirri staðreynd að í fyrsta sinn vinnur íslenskt félagslið Evrópukeppni félagsliða heldur eru Færeyingar einnig í sjöunda himni yfir að hafa eignast sinn fyrsta Evrópumeistara í handknattleik.
Allan Norðberg leikmaður Evrópubikarmeistara Vals er fyrsti Færeyingurinn sem vinnur gullverðlaun í Evrópukeppni félagsliða í handknattleik.
Allan hefur leikið í sex ár á Íslandi, þar af í tvö ár með Val. Hann er færeyskur landsliðsmaður og var m.a. í færeyska landsliðinu sem tók þátt í Evrópumótinu í upphafi þessa árs.
Fleiri á morgun
Þar með er ekki öll sagan sögð því Hákun West av Teigum og Jóhan á Plógv Hansen geta fylgt í kjölfar Allans á morgun þegar lið þeirra, Füchse Berlin og Flensburg, mætast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Hamborg.
Kristján Arason varð fyrsti Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í flokkaíþrótt. Kristján og félagar hans hjá spænska liðinu Teka Santander fögnuðu sigri í Evrópukeppni bikarhafa 1990.