Allir þrír leikir íslenska landsliðsins í handknattleik karla í riðlakeppni heimsmeistaramótsins sem til stendur að fari fram í Egyptalandi í janúar fara fram á sama tíma dags, kl. 19.30, í keppnishöllinni The New Capital Sport Hall í Kaíró.
Fyrsti leikurinn verður gegn Portúgal 14. janúar. Tveimur dögum síðar leikur íslenska landsliðið gegn landsliði Alsír og hinn 18. á móti Marokkó.
Komist íslenska landsliðið í millriðlakeppni mótsins leikur það leiki sína í 6th of October Sport Hall sem einnig er innan þess svæðis sem tilheyrir hinni víðáttumiklu höfuðborg Egyptalands, Kairó. 6th of October Sport Hall er ekki langt frá Gizasléttunni þar sem hinir tilkomumiklu pýramídar hafa staðið í tugi alda.
Komist íslenska landsliðið í milliriðlakeppni HM mætir það þremur liðum úr E-riðli. Í þeim riðli eru: Noregur, Austurríki, Frakkland, Mið-Ameríka. Ekki liggur enn fyrir hvaða Mið-Ameríkuþjóða verður í E-riðli vegna þess að kórónuveiran hefur sett strik í reikning undankeppninnar á því svæði.