- Auglýsing -
- Auglýsing -

Alls ekki sjálfgefið að vinna ÍBV þrisvar í röð

Stefán Arnarson þjálfari Fram og leikmenn unnu ÍBV í þremur leikjum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

„Ég átti ekki von á að ljúka þessu einvígi í þremur leikjum en á móti kemur lékum við yfirleitt mjög vel, ekki síst í vörninni auk þess sem Hafdís [Renötudóttir] var frábær í markinu í öllum leikjunum þremur,“ sagði Steinunn Björnsdóttir leikmaður í samtali við handbolta.is í gærkvöldi eftir að Fram vann ÍBV þriðja sinni, 27:24, í undanúrslitum Olísdeildarinnar. Fram er þar með komið í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn og mætir annað hvort KA/Þór eða Val.


„Í fyrsta leiknum lékum við af miklum hraða og unnum stórsigur. Annar leikurinn í Vestmannaeyjum á mánudaginn var allt öðruvísi. Þá var hraðinn minni og við fórum niður á þeirra hraða, nokkuð sem þær gerðu mjög vel. Að þessu sinni þá var boðið upp á bland af tveimur fyrstu leikjunum,“ sagði Steinunn sem var sátt við að ljúka rimmunni í þremur leikjum og á nú nokkra aukadaga til þess að búa sig undir úrslitaleikina en sá fyrsti verður á föstudaginn eftir viku.


„Ég er ótrúlega sátt með að vinna ÍBV í þremur leikjum í röð. Það var alls ekki sjálfgefið. Við töpuðum til að mynda tvisvar sinnum fyrir ÍBV í deildinni í vetur.“


Steinunn sagði ennfremur að það væri gott fyrir sjálfstraustið innan liðsins að náð að leika góðan varnarleik hvað eftir annað og vera með markvörð í fantaformi að baki varnarinnar. „Það er gott fyrir hausinn að vörnin hafi verið svona þétt og með Hafdísi í góðu formi fyrir aftan okkur. Ef maður klikkar í vörninni þá er ósköp þægilegt að vita til þess að Hafdís verji 50 til 60% skotanna,“ sagði Steinunn Björnsdóttir leikmaður Fram sem bíður spennt eftir að komast að því hvort Fram mæti KA/Þór eða Val í úrslitaleikjum um Íslandsmeistaratitilinn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -