Andrúmsloftið var rafmagnað í íþróttahöllinni í Hoyvík í Færeyjum í gærkvöld þegar heimamenn, og ríkjandi meistarar, H71 tryggðu sér sigur úr vítakasti eftir tvíframlengdan leik og vítakeppni í annarri viðureign sinni við deildarmeistara VÍF frá Vestmanna, 34:33.
Allt ætlaði um kolla að keyra þegar Sveinur Olafsson skoraði sigurmark H71 úr vítakasti og stuðningsmenn liðsins gátu andað léttar og sleppt fram af sér beislinu af fögnuði eins og sést á meðfylgandi myndskeiði sem fengið er af Facebook-síðu H71.
Staðan í einvígi liðanna er jöfn. Hvort lið hefur einn vinning. Þriðji leikur liðanna verður í Vestmanna á laugardaginn. Vinna þarf þrjá leiki í úrslitarimmunni til að vinna færeyska meistaratitilinn 2021.
Ekkert smit kórónuveiru hefur greinst í Færeyjum frá 25. janúar og er heimilt að hafa 500 áhorfendur á kappleikjum.