- Auglýsing -
- Auglýsing -

Allt er þá þrennt er

Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka, leggur á ráðin með leikmönnum sínumí KA-heimilinu á síðustu leiktíð. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Það var svekkjandi að skora ekki sigurmarkið á síðustu sekúndu. En á móti kemur að við náðum góðu leikhléi og að því loknu að spila okkur í það færi sem vildum ná en markvörður ÍBV varði skotið. Sama gerðist á móti KA/Þór á síðasta laugardag. Þá lékum við okkur í opið færi á síðustu sekúndum. Ég er ánægður með að við náum færunum. Allt er þá þrennt er. Í næsta leik þá fer boltinn í markið í þessari stöðu,“ sagði Gunnar Gunnarsson, hinn þrautreyndi þjálfari Hauka, eftir að lið hans gerði annað jafntefli í röð, að þessu sinni, 21:21, á móti ÍBV í Schenkerhöllinni í gærkvöld í Olísdeild kvenna í handknattleik.


Gunnar sagðist vera stoltur af liðinu sem hafi unnið upp þriggja marka forskot sem ÍBV-liðið náði á kafla í síðari hálfleik. „Á þessum kafla gekk ekkert í sókninni hjá okkur og því virtist vera sem þriggja marka munur væri erfiður hjalli fyrir okkur að stíga yfir. En vörnin hélt og Annika [Friðheim Petersson markvörður] var frábær sem skipti okkur miklu máli í þeirri vinnu að koma til baka.


Ég er mjög sáttur við liðið mitt í þessum leik. Þegar upp er staðið er annað stigið væntanlega sanngjörn niðurstaða,“ sagði Gunnar en Haukar hafa fengið þrjú stig af fjórum mögulegum gegn ÍBV á leiktíðinni.


„Liðið hefur spilað nokkra leiki í röð án þess að tapa og náð meðal annars stigi á Akureyri gegn KA/Þór. En auðvitað langar stelpunum að vinna þessa jöfnu leiki. Það kemur. Nú tekur við 20 daga hlé frá leikjum. Við sjáum til hvað verður ofan á að þeim tíma liðnum,“ sagði Gunnar en Haukaliðinu hefur svo sannarlega vaxið fiskur um hrygg undir stjórn hans og Díönu Guðjónsdóttur eftir því sem á keppnistímabilið hefur liðið.

Staðan í Olísdeild kvenna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -