„Ég er ánægð með að geta tekið þess ákvörðun heil, södd og sátt. Ég lít þannig á þessi tímamót og er glöð í hjartanu með þess ákvörðun mína,“ segir handknattleikskonan og Framarinn Þórey Rósa Stefánsdóttir sem lék á dögunum sinn síðasta leik eftir 20 ár í meistaraflokki. Þórey Rósa hefur um langt árabil verið ein fremsta handknattleikskona landsins, landsliðskona og sigursæl með Fram, en um leið aðeins önnur tveggja íslenskra handknattleikskvenna sem orðið hefur Evrópumeistari með erlendu félagsliði.
Þórey Rósa segist hafa farið inn í nýliðið keppnistímabil með það í huga að það yrði hennar síðasta. Hún kvaddi landsliðið eftir Evrópumótið í Austurríki í byrjun desember.
„Allt gott tekur einhverntímann enda. Maður þarf að kunna að láta gott heita. Gulrótin var að ná EM með landsliðinu og skilja við landsliðið í góðri stöðu,“ segir Þórey Rósa.


Síðasta landsliðsmarkið af 413 skorað og fagnað í leik gegn Þýskalandi á EM í Innsbruck 3. desember 2024. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
Sem kona þá er maður settur í þá stöðu að gera allt á 20 ára tímabili. Frá tvítugu til fertugs þarf að ljúka einhverju námi og finna stað í vinnu, æfa og keppa í íþróttum og eignast börn ef það ætlunin. Þannig að það er mikill álagstími til þess að ná þessu og ná árangri á öllum sviðum
Þórey Rósa hefur einnig eingöngu leikið í meistaraflokki með Fram hér á landi. Fyrst frá 2005 til 2009 og aftur frá 2017. Hún varð bikarmeistari 2018 og 2020 og Íslandsmeistari 2018 og 2022. Þórey Rósa var valin handknattleikskona ársins af HSÍ 2017 og 2018.

16 ára frá ÍR í Fram
Þórey Rósa lék upp yngri flokka með ÍR en gekk til liðs við Fram 16 ára gömul árið 2005 og lék með meistaraflokki félagsins í fjögur ár. Þá tók við átta ára tímabil í fjórum löndum; Hollandi, Þýskalandi, Danmörku og loks fjögur ár í Noregi með Vipers. Þórey Rósa flutti heim til Íslands 2017 ásamt sambýlismanni sínum handknattleiksmanninum Einari Inga Hrafnssyni sem einnig lék ytra í átta ár.

Mikill álagstími
„Sem kona þá er maður settur í þá stöðu að gera allt á 20 ára tímabili. Frá tvítugu til fertugs þarf að ljúka einhverju námi og finna stað í vinnu, æfa og keppa í íþróttum og eignast börn ef það ætlunin. Þannig að það er mikill álagstími til þess að ná þessu og ná árangri á öllum sviðum. Þess vegna hefur maður oft orðið að setjast niður, velta fyrir sér og taka ákvörðun um næstu skref og í hvaða átt skal fara.
Einstaklega lukkuleg
Lengst af vorum við Einar bæði á fullu í handbolta og höfðum það markmið að hámarka okkar ferla. Ég er einstaklega lukkuleg með hvernig til tókst hjá okkur þótt við höfum á stundum þurft að velja, hafna og fórna en að sama skapi að græða hvort á öðru. Ég hefði aldrei náð þessum ferli nema vegna þess að við hjálpuðumst ríkulega að með að vinna vel saman,“ segir Þórey Rósa.

Segja má að íþróttirnar hafi veitt mér vegferðina og lífið, burt séð frá öllum handboltasigrum. Íþróttirnar hafa gert mig að þeim karakter sem ég er og bý að það sem eftir er
Þórey Rósa lék í 8 ár með félagsliðum utan Íslands. Fyrst með E&O Emmen í Hollandi, þá með Oldenburg í Þýskalandi. Frá Þýskalandi fór Þórey Rósa til Team Tvis Holstebro í Danmörku og var í tvö ár, frá 2011 til 2013, og loks var hún í fjögur ár með Vipers Kristiansand.


Einar Ingi, fyrir miðri mynd t.v. fylgist með á EM 2024 í Innsbruck. Sonur hans og Þóreyjar, Arnór Bjarki á myndinni t.h. að hvetja móður sína og landsliðið til dáða á sama móti. Ljósmyndir/Hafliði Breiðfjörð
Einar hætti fyrir tveimur árum
Einar Ingi lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum en sagði ekki skilið við íþróttirnar því hann er nú framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Aftureldingar í Mosfellsbæ. Þórey Rósa og Einar Ingi búa í bænum ásamt tveimur börnum sínum; Arnóri Bjarka 9 ára og Söru Sonju sem verður fimm ára í nóvember. Þórey Rósa vinnur sem mannauðssérfræðingur hjá Air Atlanta.
Evrópumeistari
Á síðara ári sínu með danska úrvalsdeildarliðinu Team Tvis Holstebro, 2012/2013 vann Þórey Rósa EHF-bikarinn (nú Evrópudeildin) og varð fyrst íslenskra kvenna ásamt Rut Arnfjörð Jónsdóttur til að vera í sigurliði í Evrópukeppni félagsliða. Rut var samherji Þóreyjar Rósu hjá félaginu en einnig voru þær samherjar í landsliðinu svo árum skipti.

Vegferðin og lífið
„Það var ótrúlega sætur árangur hjá okkur. Burt séð frá árangrinum á handboltavellinum í gegnum árin þá hafa íþróttirnar gefið af sér góð sambönd og kynni af fjölda fólks. Segja má að íþróttirnar hafi veitt mér vegferðina og lífið, burt séð frá öllum handboltasigrum. Íþróttirnar hafa gert mig að þeim karakter sem ég er og bý að það sem eftir er,“ segir Þórey Rósa og bætir við að hlutverk sín hafi verið af margvíslegum toga eins og gefur að skilja á 20 ára ferli í meistaraflokki og í meira en hálfan annan áratug með landsliðinu.
Allt hafði sinn sjarma
„Það var gaman að vera litla peðið og vera svo síðar reynsluboltinn. Allt hafði þetta sinn sjarma,“ segir Þórey Rósa sem kvíðir ekki verkefnaskorti þótt hún hafi leikið sinn síðasta handboltaleik.

Þórey Rósa á 145 landsleiki og skoraði í þeim 413 mörk. Hún á að baki og fjögur stórmót, HM2011, EM2012, HM2023 og EM2024. Þórey Rósa var þriðja landsliðskonan til þess að skora meira en 400 mörk fyrir landsliðið. Aðeins tvær konur hafa leikið oftar fyrir íslenska landsliðið, Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, 170, og Arna Sif Pálsdóttir, 150.
Verður áfram nóg að gera
„Ég bý að því að hafa farið á golfnámskeið 12 ára,“ segir Þórey Rósa í léttum dúr. „Allt krefst æfingar og viðhalds. Maður fer kannski eitthvað í golfið. Síðan á maður heima í fallega Mosfellsbænum þar sem nóg er af hólum og hæðum til að sprikla í kringum. Ég lærði á píanó árum saman og aldrei að vita nema að maður fikri sig áfram við það eða fari í kór. Ég hef nóg að gera og reikna frekar með að áfram verði of mikið að gera en of lítið,“ segir Þórey Rósa sem mun ekki alveg slíta sig frá handboltanum þegar fram líða stundir.

Vil nýta krafta og reynslu
„Ég reikna með hjálpa eitthvað til í boltanum í hvaða mynd sem það verður. Ég hef áhuga á að nýta krafta mína og reynslu á næstu árum þótt ég búist ekki við að snúa mér að þjálfun, að minnsta kosti ekki strax,“ segir Þórey Rósa Stefánsdóttir ein reynslumesta handknattleikskona landsins.