Eftir fimm sigurleiki í röð þá máttu Óðinn Þór Ríkharðsson og samherjar í Holstebro bíta í það súra epli að tapa í gærkvöld fyrir Skanderborg, 30:27, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Leikið var í Skanderborg. Holstebro er eftir sem áður í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig eftir 17 leiki. Liðið er fjórum stigum af eftir og tveimur leikjum á undan GOG sem trónir í toppsætinu.
Óðinn Þór skoraði tvö mörk í fimm skotum í leiknum. Holstebro var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:13, en mátti gefa eftir í síðari hálfleik.
Skarð er fyrir skildi hjá Holstbro. Johan Meklenborg besti leikmaður liðsins á leiktíðinni meiddist á dögunum og verður frá keppni það sem eftir er keppnistímabilsins. Melenborg hefur skorað 60 mörk og átt 56 stoðsendingar á tímabilinu.
Staðan í dönsku úrvalsdeildinni:
GOG 28(15), Aalborg 27(17), Holstebro 24(17), Bjerringbro/Silkeborg 21(16), Skjern 19(16), Kolding 17(16), SönderjyskE 17(16), Fredericia 16(16), Skanderborg 16(17), Mors Thy 13(17), Ribe-Esbjerg 13(17), Aarhus 12(16), Ringsted 5(17), Lemvig 2(17).