- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Alltaf er erfitt að skilja einhverjar eftir

Ágúst Þór Jóhannsson aðstoðarþjálfari, Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ og Arnar Pétursson landsliðsþjálfari þegar EM-hópurinn var kynntur í dag. Ljósmynd/Ívar
- Auglýsing -


„Leikirnir við Pólland í síðasta mánuði gáfu okkur ákveðin svör sem hjálpuðu mikið en engu að síður er alltaf erfitt að skilja einhverjar eftir. Það er þannig og á kannski að vera svoleiðis. Um er að ræða leikmenn sem hafa stefnt að því marki í langan tíma með okkur að vilja vera með,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna í samtali við handbolta.is í eftir að hann hafði tilkynnt hvaða 18 konur leika fyrir hönd Íslands á Evrópumótinu í handknattleik sem hefst 28. nóvember í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi.

Leikir Íslands í F-riðli EM kvenna 2024:
29. nóvember: Ísland - Holland, kl. 17.
1. desember: Ísland - Úkraína, kl. 19.30.
3. desember: Ísland - Þýskaland, kl. 19.30.

Sandra þarf lengri tíma

Meðal þeirra sem ekki er í landsliðshópnum er Sandra Erlingsdóttir leikmaður Metzingen í Þýskalandi sem var ein helsta driffjöður landsliðsins á heimsmeistaramótinu á síðasta ári. Sandra fæddi barn í júlí og þrátt fyrir að vera byrjuð að leika að einhverju marki með Metzingen þá verður hún eftir heima að þessu sinni.

„Sandra er á góðri leið til baka en að okkar mati þarf hún lengri tíma til að það væri raunhæft að hún fari með okkur á EM að þessu sinni,“ svaraði Arnar spurður um af hverju Sandra væri ekki meðal leikmannanna 18 sem valdar voru til þátttöku.

Sjá einnig: Fimm breytingar frá HM hópnum fyrir ári

Elínarnar eru öflugar

„Á sama tíma og við stöndum frammi fyrir þessu vali þá erum við með Elínu Klöru Þorkelsdóttur og Elínu Rósu Magnúsdóttur, sem leika sömu stöðu og Sandra, sem hafa verið og eru mjög öflugar með félagsliðum sínum og landsliðinu í undanförnum verkefnum. Það skiptir miklu máli þegar horft var til valsins,“ sagði Arnar sem ræddi m.a. val sitt við Söndru áður en það var opinberað.

Hittast á mánudaginn

Landsliðið kemur saman fyrir EM á mánudaginn hér á landi. Farið verður til Sviss 21. nóvember og leikið gegn landsliði Sviss, 22. og 24. nóvember, áður en stefnan verður tekin til Innsbruck í Austurríki þar sem fyrsti leikur Íslands á EM verður föstudaginn 29. nóvember.

Evrópuleikir stytta undirbúning

„Mánudagurinn tekur mið af því að nokkrir leikmenn taka þátt í Evrópuleikjum um helgina. Við förum sennilega ekki á fulla ferð fyrr en á þriðjudag og æfum aftur á miðvikudaginn. Síðan höldum við til Sviss á fimmtudaginn sem verður frábært milliskref á leið okkar til Austurríkis. Í Sviss ætlum við okkur að leika tvo góða leiki áður farið verður til Innsbruck.“

Sjá einnig: Þrjár voru með á EM 2010 og 2012

Brjóta blað?

Íslenska landsliðið hefur tvisvar áður tekið þátt í lokakeppni EM, 2010 og 2012. Leikirnir eru sex að tölu. Þeir hafa allir tapast. Spurður hvort markmiðið væri að brjóta blað og vinna leik á EM svaraði Arnar á sinn diplomatíska hátt:

„Við munum fyrst og fremst halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á undanfarin ár, beina sjónum að okkur, horfa á okkar leik og fá eins mikið út úr honum og hægt er hverju sinni. Við höfum í fjögur ár stefnt á taka þátt í EM2024. Það markmið er í höfn. Á sama tíma höfum við talað um vegferðina. Hún heldur áfram þótt einum áfanga hafi verið náð. Um leið er annar kafli að byrja og við viljum hefja hann á eins jákvæðan hátt og hægt er,“ sagði Arnar og bætti við:

Tvö lið frá ÓL 2024

„Við verðum í gríðarlega erfiðum riðli á EM með Hollandi og Þýskalandi sem eru í fimmta og sjötta sæti heimslistans auk þess að taka þátt í Ólympíuleikunum í sumar. Við vitum minna um landslið Úkraínu sem staðsett er rétt fyrir ofan okkur á heimslistanum. Það er ekki langt í það lið. Ég skal svara spurningunni síðar,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í glaður í bragði í samtali við handbolta.is í dag.

Sjá einnig: EM-hópurinn hefur verið opinberaður

  • Handbolti.is verður vitanlega á EM, án ríkisaðstoðar, og fer utan með blaðamann og ljósmyndara sem fylgja landsliðinu eftir meðan það stendur í ströngu.

A-landsliðs kvenna – fréttasíða.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -