- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Alltaf gaman þegar vel gengur

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir t.v. ásamt Arnari Péturssyni landsliðsþjálfara og Rut Arnfjörð Jónsdóttur, landsliðsfyrirliða, á æfingu í gær. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Mikil vinna er að baki og vissulega er alltaf gaman þegar vel gengur,“ sagði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir handknattleikskona úr ÍBV sem er í íslenska landsliðinu í handknattleik sem mætir B-landsliði Noregs í tveimur leikjum á næstu dögum. Þeim fyrri á Ásvöllum klukkan 19.30 í kvöld og aftur á sama stað klukkan 16 á laugardaginn.

Komin á kunnuglegar slóðir

Hanna hefur verið fjarri dyrum landsliðsins í nærri tvö ár í kjölfar þess að slíta liðband í vinstri úlnlið vorið 2021. Um tíma segist hún hafa verið óviss um að eiga endurkomu inn á völlinn aftur. M.a. hafi hún orðið að komast upp á lagið með að grípa boltann aftur. Nú er Hanna komin á fulla ferð með toppliði Olísdeildarinnar og er auk þess komin á kunnuglegar slóðir þegar litið er á lista yfir markahæstu leikmennn deildinnar. Þar hefur Hanna tyllt sér í efsta sætið.

Fyrri viðureign Íslands og B-landsliðs Noregs verður á Ásvöllum í kvöld, fimmtudag, og hefst klukkan 19.30. Síðari leikurinn verður á sama stað á laugardaginn klukkan 16.
Klettur býður landsmönnum á leikina.

„Mér finnst ég eiga meira inni þótt ég hafi nú þegar náð miklu fram á undanförnum mánuðum og misserum,“ sagði Hanna þegar handbolti.is hitti hana fyrir eina af æfingum landsliðsins í vikunni.

Mikill heiður

„Það eru nærri tvö ár liðin síðan ég meiddist illa á hendi. Síðan hef ég ekki verið með landsliðinu fyrr en núna enda tók talsverðan tíma fyrir mig ná mér vel af meiðslunum og komast í fyrra leikform. Hægt og rólega er ég að koma til baka og þess vegna er mikill heiður að vera valinn í hópinn að þessu sinni,” sagði Hanna.

Hefur talsverða reynslu

„Ég hef lagt mikið á mig á undanförnum árum til þess að koma til baka enda er það mjög stórt verkefni hverju sinni að ná sér góðri eftir langvarandi og erfið meiðsli. Ég hef nokkra reynslu af því í gegnum minn feril að koma til baka eftir erfið meiðsli,“ sagði Hanna sem m.a. hefur áður slitið krossband í hné. Það sem plagaði hana núna síðast var slit á liðbandi í vinstri úlnlið. Gekkst Hanna undir aðgerð af þeim sökum haustið 2021.


„Eins og vinnan getur verið löng og ströng við að koma til baka eftir meiðsli er jafn gaman að sigrast á meiðslunum og líða vel á vellinum á nýjan leik í góðu formi,“ sagði Hanna sem er ekki aðeins handknattleikskona í fremstu röð heldur einnig sjúkraþjálfari. Úlnliðsmeiðslin höfðu þar af leiðandi ekki aðeins áhrif feril hennar innan vallar heldur einnig utan vallar.

Varð að læra að grípa

Fyrir ári síðan var Hanna í þeim sporum að þurfa að læra að grípa boltann aftur. „Í talsverðan tíma gat ég ekki gripið boltann. Þar af leiðandi var ég ekki viss um hversu miklum bata ég gæti náð. Óvissan var mikil og þess vegna er gleðin enn meiri hjá mér að vera kominn inn á völlinn aftur, jafnt sem sóknamaður og varnarmaður. Ég sá ekkert endilega fram á það um tíma í endurhæfingaferlinu.“

Að standa með sjálfum sér

Á endurhæfingatímanum reyndi ekki aðeins á líkamlega að sögn Hönnu, heldur einnig andlega. „Það er erfitt að glíma lengi við erfið meiðsli, vera utan hópsins og geta ekki lagt sitt að mörkum innan vallar. Maður þarf að standa með sjálfum sér og halda áfram að vinna þótt það sé erfitt.“

Spennandi tímar hjá landsliðinu

Hanna segir heiður og gleði fylgja því að vera mætt í landsliðshópinn aftur. Framundan eru spennandi verkefni, leikir við sterkt B-landslið Noregs og leikir við Ungverja í undankeppni heimsmeistaramótsins eftir mánuð.

„Það er frábært að fá þessa leiki við Noreg til þess að stilla saman strengina, hvað þá fyrir okkur sem erum að koma inn í hópinn aftur. Mér líst mjög vel á hópinn og þjálfarateymið. Það eru spennandi tíma framundan hjá landsliðinu. Á því leikur enginn vafi,“ sagði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir landsliðskona og leikmaður ÍBV.

Fyrri viðureign Íslands og B-landsliðs Noregs verður á Ásvöllum í dag, fimmtudag, og hefst klukkan 19.30. Síðari leikurinn verður á sama stað á laugardaginn klukkan 16.
Klettur býður landsmönnum á leikina.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -