- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Andri Már lék vel – Ómar Ingi og Arnar Freyr með á ný – Viggó ennþá úr leik

Andri Már Rúnarsson leikmaður Leipzig. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Andri Már Rúnarsson skoraði sjö mörk og átti tvær stoðsendingar þegar SC DHfK Leipzig tapaði á heimavelli fyrir Mathias Gidsel og félögum í Füchse Berlin, 33:30, í þýsku 1. deildinni í dag í hörkuleik. Einnig gaf Andri Már tvær stoðsendingar. Andri Már er orðinn ein kjölfesta Leipzig-liðsins sem því miður hefur ekki vegnað sem skildi á leiktíðinni.
Luca Witzke skoraði 10 mörk og gaf níu stoðsendingar og var atkvæðamestur hjá Leipzig-liðinu sem Rúnar Sigtryggsson þjálfar. Staðan í deildinni er neðst í þessari grein.


Gidsel var markahæstur eins og stundum áður hjá Füchse Berlin. Hann skoraði átta mörk og gaf þrjár stoðsendingar.

Erlangen fékk stig

Maciej Gebala tryggði HC Erlangen jafntefli á heimavelli gegn Hannover-Burgdorf, 33:33, í dag. Þetta var fyrsta stig HC Erlangen um nokkurt skeið en liðið er í miklum erfiðleikum í næsta neðsta sæti deildarinnar. Martin Schwalb þjálfara var sagt upp í vikunni eftir fimm mánuði í starfi og við tók aðstoðarmaður hans, Johannes Selin, sem var aðalþjálfari áður Schwalb var kallaður til starfa í október.

Viggó ekki með

Viggó Kristjánsson var ekki með Erlangen í leiknum. Hann var keyptur til félagsins í lok síðasta árs og hefur ekki ennþá náð leik vegna hnémeiðsla sem hann varð fyrir á HM í janúar.
Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem lengi var með yfirhöndina í leiknum og tapaði mikilvægu stigi í toppbaráttunni.

Ómar Ingi mætti til leiks

Ómar Ingi Magnússon var í leikmannahópi SC Magdeburg í fyrsta sinn síðan hann meiddist í lok nóvember. Kom hann lítillega við sögu í stórsigri á heillum horfnu liði Potsdam sem ekkert erindi á í deildina, 25:15, í Magdeburg í kvöld. Ómar Ingi skoraði ekki úr eina markskotinu sem hann átti. Gísli Þorgeir Kristjánsson var ekki með vegna iljarmeiðsla.

Toppliðið tapaði

Í gærkvöld tapaði efsta lið þýsku 1. deildarinnar, Melsungen, fyrir Flensburg, 35:33, í Flensburg. Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk fyrir Melsungen í leiknum og gaf þrjár stoðsendingar.

Arnar Freyr Arnarsson var í leikmannahópi Melsungen í fyrsta sinn eftir að hafa meiðst illa í landsleik snemma í janúar, rétt fyrir HM. Arnar kom lítið við sögu í leiknum í gær.


Staðan í þýsku 1. deildinni:

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -