Þýska 1. deildarliðið Stuttgart hefur samið við Andra Má Rúnarsson til fjögurra ára, fram á mitt árið 2025. Gengur Andri Már þegar til liðs við félagið en hann hefur undanfarið ár leikið með Fram og þar áður var hann í herbúðum Stjörnunnar.
Andri Már, sem er 18 ára, er þessa dagana með U19 ára landsliði Íslands á Evrópumótinu í Króatíu en liðið tryggði sér sæti í millriðli, átta liða úrslitum, í gær með sigri á Serbum, 31:30. Andri Már var valinn maður leiksins. Hann getur jafnt leikið sem miðjumaður og vinstri skytta.
Stuttgart greindi frá þessu fyrir stundu og sagði að Andri Már komi til félagsins og taki til við æfingar strax að lokinni þátttöku íslenska landsliðsins á EM.
Andri Már þekkir vel til í Þýskalandi. Hann bjó þar um árabil þegar faðir hans, Rúnar Sigtryggsson, þjálfaði hjá EHF Aue og Balingen Weilstetten. Andri Már æfði og lék með unglingaliði Leipzig um skeið áður en fjölskyldan flutti heim til Íslands sumarið 2018.
Hjá Stuttgart hittir Andri Már fyrir Seltirninginn og landsliðmanninn Viggó Kristjánsson sem gerði það afar gott með liðinu á síðasta keppnistímabili.