Bosníska meistaraliðið HC Izvidac, sem sló út Hauka í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla í handknattleik síðla vetrar hefur verið sektað um 7.500 evrur, jafnvirði 910 þúsund kr, af Handknattleikssambandi Evrópu, EHF. Ríflega helmingur upphæðarinnar, 4.000 evrur, er vegna óviðunandi framkomu áhangenda liðsins á fyrri undanúrslitaleik HC Izvidac og AEK í Evrópubikarkeppni karla í apríl. Áhorfendur köstuðu ýmsu lauslegu inn á leikvöllinn meðan viðureignin stóð yfir og varð hvað eftir annað að gera hlé af þeim sökum.
Hinn hlutinn er vegna þess að stuðningsmenn fóru inn á leikvöllinn. Stuðningsmenn AEK gerðu slíkt hið sama og því fær gríska liðið einnig 3.500 evru sekt.
Er þetta enn ein sektin sem AEK fær vegna þátttöku sinnar í Evrópubikarkeppninni á liðinni leiktíð en steininn tók úr þegar liðið var dæmt í tveggja ára keppnisbann fyrir að neita að mæta til leiks í síðari úrslitaleiknum við HC Alkaloid í Evrópubikarkeppninni. Hætt er við að félagið verði að slá víxil í sumar til að skrapa saman fyrir sektum.
Sjá einnig: AEK sektað og dæmt í tveggja ára keppnisbann
Vatni skvett á dómara
Rúmenska liðið Dunarea Braila verður einnig að greiða 4.000 evru sekt vegna þess að stuðningsmaður liðsins skvetti vatni á dómara leiks Dunarea Braila og Ikast frá Danmörku í átta liða úrslitum Evrópududeildar kvenna síðla vetrar.
Mættu ekki á fund
Ekki er öll sagan sögð af sektum frá EHF. Greiðsluseðlar verða sendir til handknattleikssambanda Króatíu og Póllands sem sendu ekki fulltrúa á vinnubúða EHF sem haldnir voru í kjölfar þess þegar dregið var í riðla lokakeppni EM 2026. Hvort samband verður að reiða fram 1.500 evrur í sekt, 180 þúsund kr. Lítur EHF málið alvarlegum augum.
Létu undir höfuð leggjast
Eistneska handknattleikssambandið verður greiða 2.000 evrur í sekt fyrir að láta undir höfuð leggja að skrá réttindi þjálfara sem stýrði kvennalandsliðnu í leik við Bosnia Herzegovina í forkeppni EM í mars á þessu ári.