Kvennalandslið Slóveníu í handknattleik er án þjálfara innan við þremur vikum áður en það mætir íslenska landsliðinu í umspilsleikjum fyrir heimsmeistaramótið. Frá því var greint í Slóveníu í dag að Uros Bregar, sem hefur verið þjálfari slóvenska kvennalandsliðsins síðustu fimm ár hafi óskað eftir að láta af störfum nú þegar.
Franjo Bobinac, forseti Handknattleikssambands Slóveníu, segir að nýr þjálfari verði ráðinn á allra næstu dögum. Uppsögn Bregar hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti.
Talið er Bregar, sem er 42 ára gamall, hafi fengið hagstætt tilboð um að stýra kvennalandsliði Serbíu en það hefur ekki fengist staðfest.
Serbar verða andstæðingar íslenska landsliðsins í undankeppni Evrópumótsins sem hefst í október. Serbar leita nú að þjálfara fyrir kvennalandsliðið í stað Ljubomir Obradovic sem hætti eftir að serbneska landsliðinu tókst ekki að tryggja sér farseðilinn á Ólympíuleikana. Voru það önnur vonbrigði Serba á skömmum tíma en árangur landsliðsins á EM í desember þótti ekki viðunandi.
Bregar, sem er fæddur í Slóveníu, er einnig þjálfari slóvenska meistaraliðsins RK Krim Ljubljana.