Landslið Angóla verður andstæðingur íslenska landsliðsins í síðasta leik liðanna á heimsmeistaramóti kvenna, skipuð leikmönnum 18 ára og yngri, í fyrramálið. Angóla vann landslið Kasakstan í morgun, 22:20, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 11:7.
Leikur Íslands og Angóla hefst klukkan 10 í fyrramálið, 18 að staðartíma í Chuzhou í Kína. Að vanda verður handbolti.is með textalýsingu frá leiknum auk þess sem streymi frá viðureigninni verður aðgengilegt í gegnum hlekk á forsíðunni.
Sigurliðið hreppir 25. sæti heimsmeistaramótsins af 32 þátttökuliðum. Íslenska landsliðið kjöldró leikmenn indverska landsliðsins í morgun, 33:15, eftir að hafa náð mest 21 marks forskoti. Indverjar mæta Kasökum í kapphlaupi um 27. sætið.
Til fróðleiks eru hér fyrir neðan úrslit leikja angólska landsliðsins á HM:
Svartfjallaland – Angóla 26:16 (14:10).
Angóla – Króatía 14:30 (4:19).
Nígería – Angóla 29:21 (11:9).
Austurríki – Angóla 38:20 (13:9).
Chile – Angóla 21:32 (9:11).
Angóla – Kasakstan 22:20 (11:7).
HM18 kvenna – leikjadagskrá, milliriðlakeppni, úrslit