Það á ekki af markvörðum þýska handknattleiksliðsins Rhein-Neckar Löwen að ganga um þessar mundir. Fyrir nokkrum vikum meiddist Mikael Appelgren illa og verður frá keppni eitthvað fram á næsta ári. Í gær heltist Andreas Palicka úr lestinni eftir að hann meiddist í hægra hné í viðureign Rhein-Neckar Löwen og Erlangen í fimmtu umferð þýsku deildarinnar. Reiknað er með að Palicka verði frá keppni fram undir árslok.
Þar með er ljóst að tveir helstu markverðir sænska landsliðsins leika ekki með landsliðinu í tveimur leikjum í undankeppni EM í byrjun nóvember, fari leikirnir yfirhöfuð fram.
Fljótlega eftir að Appelgren meiddist gerði Rhein-Neckar Löwen samning við Nikolas Katisigiannis um að vera Palicka til halds og trausts. Nú kemur það væntanlega í hlut Katisigiannis að bera hitann og þungann af markvarðarstöðunni í Rhein-Neckar Löwen næstu vikurnar.
Rhein-Neckar Löwen er í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar um þessar mundir með átta stig að loknum fimm leikjum eins og Flensburg og Kiel. Löwen fær Odd Gretarsson og samherja í Balingen í heimsókn í sjöttu umferð deildarinnar á sunnudaginn.
Tveir Íslendingar leika með Rhein-Neckar Löwen, Alexander Petersson og Ýmir Örn Gíslason.