- Auglýsing -
- Auglýsing -

Annar sigur í röð hjá Rúnari og lærisveinum

Rúnar Sigtryggsson einbeittur við hlíðarlínuna í leik með Leipzig. Mynd/Facebooksíða SC DHfK Handball
- Auglýsing -

Lærisveinar Rúnars Sigtryggssonar í SC DHfK Leipzig virðast vera að ná sér á strik eftir erfiðar vikur í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Þeir unnu í dag annan leik sinn í röð á heimavelli þegar MT Melsungen kom í heimsókn í keppnishöllina í Leipzig, QUARTERBACK Immobilien Arena. Leipzig vann með fimm marka mun, 32:27, við mikla kátínu áhorfenda sem voru nærri 5.200.

Viggó Kristjánsson skoraði sjö mörk fyrir Leipzig og var markahæstur. Tvö markanna skoraði Seltirningurinn frá vítapunktinum. Hann átti einnig tvær stoðsendingar og var einu sinni sendur í tveggja mínútna kælingu. Andri Már Rúnarsson skoraði ekki mark að þessu sinni.

Elvar Örn Jónsson fór mikinn í leiknum og var markahæstur leikmanna Melsungen með níu mörk. Einnig átti Elvar Örn eina stoðsendingu auk þess að vera svo ákveðinn við varnarleikinn að hann varð að sætta sig við að vera tvisvar sinnum vikið af leikvelli. Arnar Freyr Arnarsson náði ekki að skora mark fyrir Melsungen.

Leipzig er komið upp í 10. sæti með 19 stig að loknum 22 leikjum. Melsungen er áfram í fimmta sæti, þremur stigum á eftir Kiel og fjórum stigum fyrir ofan Hannover-Burgdorf.

Berlínarliðið vann

Füchse Berlin náði aftur þriggja stiga forskoti í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar í dag eftir að SC Magdeburg minnkaði forskotið niður í eitt stig með því að leggja Gummersbach. Berlínarliðið vann HC Erlangen, 39:32, í Max Schmeling-Halle í Berlin. Füchse hefur leikið einum leik fleira en Magdeborgarliðið.

Daninn Mathias Gidsel var í ham í leiknum og skoraði 14 mörk í 15 skotum fyrir Füchse Berlin.

Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -