Nóg er að gera hjá íslenskum handknattleiksdómurum utanlands þessa dagana. Í kvöld verða Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elísson dómarar í viðureign pólska liðsins Industria Kielce og HBC Nantes í fimmtu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Leikurinn fer fram í Póllandi og er hluti af A-riðli keppninnar.
Þetta er annar leikurinn sem Anton Gylfi og Jónas dæma í Meistaradeildinni á leiktíðinni en þeir hafa átt sæti í dómarahópi deildarinnar um árabil og dæmt allt að 10 leiki á tímabili. Þeir voru síðast dómarar á viðureign PSG og Eurofarm Pelister í annarri umferð 18. september og eiga væntanlega eftir að dæma fleiri leiki í Meistaradeildinni áður en þeir fara á EM í janúar.
Fleiri eru á ferðinni
Í gær sagði handbolti.is frá því að Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæma tvo leiki ytra á næstu viku, annan í undankeppni EM kvenna og hinn í Evrópudeild karla í handknattleik.
Í gær var Hlynur Leifsson eftirlitsmaður EHF á viðureign Fredericia HK og Hannover-Burgdorf í Evrópudeild karla.
Í næstu viku verður Reynir Stefánsson formaður dómaranefndar HSÍ eftirlitsmaður á leik IK Sävehof og Fredericia HK í Evrópudeild karla.