- Auglýsing -
- Auglýsing -

Anton Gylfi og Jónas mættir til leiks í Celje

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dómarar. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Handknattleiksdómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson slá ekki slöku við þessa daga. Í viðbót við annir í dómgæslu hér heima þá hafa þeir verið munstraðir á viðureign Slóveníumeistara RK Celje Pivovarna Laško og ungversku meistaranna Pick Szeged í Meistaradeild karla í handknattleik í kvöld.


Flautað verður til leiks klukkan 17.45 og geta áhugamenn um trausta dómgæslu fylgst með leiknum á EHFtv.com án endurgjalds eins og öðrum leikjum keppninnar.


Leikurinn fer fram í Dvorana Zlatorog, íþróttahöllinni glæsilegu í Celje í Slóveníu, um 90 km austur af höfuðborginni Ljubljana. Þetta er annar leikur Antons Gylfa og Jónasar í Meistaradeildinni á þessari leiktíð. Í byrjun nóvember dæmdu þeir leik PPD Zagreb og Dinamo Búkarest sem fram fór í Zagreb.

Fleiri á ferðinni á leikvöllunum

Fimm viðureignir verða háðar í áttundu umferð Meistaradeildar Evrópu í kvöld að leiknum í Celje meðtöldum. Fleiri Íslendingar verða á ferðinni í leikjunum sem standa fyrir dyrum en Anton Gylfi og Jónas.


Haukur Þrastarson og félagar í Łomża Industria Kielce sækja heim Orra Frey Þorkelsson og samherja í norska meistaraliðinu Elverum. Leikurinn hefst í Terningen Arena í Elveum klukkan 17.45.


Bjarki Már Elísson verður að vanda í liði Veszprém sem mætir PPD Zagreb í Arena Zagreb klukkan 19.45. Veszprém er efst og taplaust í A-riðli Meistaradeildarinnar með 13 stig eftir sjö leiki.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -