Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma viðureign Kolstad og ungverska liðsins Pick Szeged í B-riðli Meistaradeildar Evrópu sem fram fer í Þrándheimi í kvöld. Þeir verða svo sannarlega ekki einu Íslendingarnir á svæðinu. Óhætt er að segja um Íslendingamót verði að ræða í Trondheim Spectrum að þessu sinni og spurning hvort Íslendingafélagið í bænum kalli saman til fundar.
Arnór Snær Óskarsson leikur í fyrsta sinn með Kolstad auk þess sem Benedikt Gunnar Óskarsson, Sigvaldi Björn Guðjónsson og Sveinn Jóhannsson leika með Kolstad.
Síðast en ekki síst er Janus Daði Smárason ein helsta kjölfesta sóknarleiks Pick Szeged sem er í öðru sæti riðilsins með 10 stig að loknum átta leikjum. Kolstad er í sjötta sæti af átta liðum með sex stig.
Viðureignin í Þrándheimi í kvöld verður sú fjórða sem Anton og Jónas dæma í Meistaradeild karla á keppnistímabilinu. Þeir voru síðast á ferðinni í Lissabon 17. október þegar Sporting Lissabon tók á móti Füchse Berlin.