Dagur Gautason og samherjar í norska úrvalsdeildarliðinu ØIF Arendal Elite hrósuðu sigri á Bækkelaget, 30:28, á heimavelli í kvöld þegar blásið var til leiks á ný í deildinni eftir hlé síðan fyrir jól, m.a. vegna Evrópumóts karla í handknattleik.
Sigurinn var torsóttur og það var ekki fyrr en á síðustu 10 mínútunum sem ØIF Arendal Elite náði frumkvæðinu fyrir alvöru. Bækkelaget, sem situr í 11. sæti var mark yfir, 14:13, að loknum fyrri hálfleik og hélt forystunni, þótt naum væri, fram eftir síðari hálfleik.
Dagur skoraði þrjú mörk að þessu sinni. Hafþór Már Vignisson lék ekki með í kvöld og verður væntanlega ekkert með Arendal á leiktíðinni eftir að hafa farið í aðgerð í síðustu viku vegna brjósksloss.
ØIF Arendal Elite komst upp í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar með stigin sín 23 þegar 16 leikir eru að baki. Kolstad er efst með 27 stig og á leik inn á ØIF Arendal Elite. Elverum er í öðru sæti með 24 stig og hefur einnig lokið 15 leikjum eins og Kolstad.
Drammen er í fjórða sæti stigi á eftir ØIF Arendal Elite.
Axel og Elías Már unnu
Í úrvalsdeild kvenna þá vann Storhamar, liðið sem Axel Stefánsson þjálfar við annan mann, öruggan sigur á Follo, 33:21, á útivelli og er í öðru sæti.
Fredrikstad Bkl. vann Romerike Ravens á heimavelli, 30:28, en Elías Már Halldórsson er þjálfari Fredrikstad sem er í fimmta sæti.
Nánar er hægt að skoða stöðuna í norsku úrvalsdeildunum og í fleiri deildum í evrópuskum handknattleik hér.