Arnari Daða Arnarssyni var í gær sagt upp starfi aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla hjá Olísdeildarliði Stjörnunnar. Frá þessu er sagt á vef Handkastsins en Arnar Daði er annar ritstjóri fréttamiðilsins. Arnar Daði hefur verið aðstoðarþjálfari karlaliðs Stjörnunnar frá sumrinu 2024 og starfað við hlið Hrannars Guðmundssonar sem tók við þjálfun liðsins haustið 2023.
Uppsögnin nær ekki til kvennaliðsins en Arnar Daði kom inn í þjálfarateymi þess í byrjun nóvember.
Ekki er annað vitað en Hrannar haldi haldi áfram þjálfun karlaliðs Stjörnunnar.
Gengi Stjörnunnar hefur ekki verið sem best í Olísdeild karla. Liðið situr í áttunda sæti með 10 stig eftir 15 leiki eins og HK sem er í níunda sæti.
Uppsagnarinnar er ekki getið á fréttamiðlum Stjörnunnar.



