Arnar Daði Arnarsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokksliðs Stjörnunnar og verður hægri hönd Hrannars Guðmundssonar sem stýrt hefur Stjörnuliðinu síðan í byrjun október.
Arnar Daði er enginn nýgræðingur í þjálfun meistaraflokksliða né yngri flokka. Síðast kom Arnar Daði að þjálfun meistaraflokksliðs hjá Gróttu en lét gott heita eftir þriggja ára starf vorið 2022. Síðan hefur Arnar Daði m.a. þjálfað yngri flokka hjá Val.
Samhliða öðrum störfum síðustu árin hefur Arnar Daði getið sér gott orð sem umsjónamaður hlaðvarpsþáttarins Handkastið.
„Arnar Daði er frábær þjálfari sem hefur gert frábæra hluti hjá Val. Einnig hefur hann reynslu úr deildinni sem er mikilvægt. Arnar er vakinn og sofinn yfir handbolta og litríkur karakter sem verður mjög gaman að vinna með og hjálpar okkur að taka næsta skref!,“ segir Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnnnar í tilkynningu deildarinnar í dag.
Stjarnan hafnaði í sjöunda sæti Olísdeildar í vetur og mætti Aftureldingu í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar og féll úr leik eftir oddaleik.