Arnar Freyr Arnarsson verður ekki með íslenska landsliðinu í handknattleik á heimsmeistaramótinu sem hefst í næstu viku vegna tognunar í aftanverðu vinstra læri. Útlit er fyrir að hann verði því miður vikum saman frá keppni með félagsliði sínu MT Melsungen sem situr í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar.
Arnar Freyr, meiddist í viðureigninni við Svía í Kristianstad Arena í gærkvöld. Eins og Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari staðfesti við handbolta.is í gærkvöld var útlitið ekki gott hjá Arnari. Þess vegna hafði Snorri Steinn samband við Svein Jóhannsson í gærkvöld.
Arnar Freyr á að baki 101 A-landsleik og skoraði 105 mörk. Hann hefur tekið þátt í öllum stórmótum landsliðsins frá og með HM í Frakklandi 2017, fjórum heimsmeistaramótum og fjórum Evrópumótum, alls 45 leikir á stórmótum. Ljóst er að mikil reynsla hverfur úr íslenska landsliðinu með brotthvarfi Arnars Freys.
A-landslið karla – fréttasíða.