Arnar Gunnarsson hefur skrifað undir nýjan samning um að þjálfa lið Neistans í Þórshöfn í Færeyjum næsta árið. Arnar tók við þjálfun liðsins á síðasta sumri og hefur samhliða verið yfirþjálfari yngri flokka félagsins.
Arnar segist vera afar ánægður með veru sína í Færeyjum. Starfið taki nú nokkrum breytingum í ljósi reynslu síðasta ár en m.a. stendur til að hann hafi umsjón með akademíu félagsins samhliða þjálfun meistaraflokks og þriðja flokks karla auk þess að tengjast þjálfun fjórða og fimmta flokks karla. Þannig á að tryggja að samfella verði í þjálfun flokkanna þriggja fyrir neðan meistaraflokk.
„Það var ríkur vilji til þess innan félagsins að ég héldi áfram auk þess sem strákarnir í liðinu eru á sömu skoðun,“ sagði Arnar í samtali við handbolta.is eftir að hann hripaði nafn sitt undir nýjan samning.
„Okkur vantar markvörð og góða vinstri skyttu annars er liðið nokkuð klárt fyrir næsta keppnistímabil,“ sagði Arnar en undir hans stjórn hafnaði Neistin í þriðja sæti í færeysku úrvalsdeildinni í vor eftir úrslitakeppni. Þá lék Neistin til úrslita í bikarkeppninni í febrúar en tapaði naumlega í úrslitaleik með eins marks mun.
Arnar segir að stefnan sé að fara í æfingaferð til Íslands upp úr miðjum ágúst, ef ástandið leyfir eins og hann kemst að orði. Ekkert smit kórónuveiru hefur greinst í Færeyjum síðan í lok janúar og lífið gengur sinn vanagang. Keppnistímabilið sé yfirstaðið og glæsilegt lokahóf færeyska handknattleikssambandsins hafi verið haldið á dögunum þar sem veittar voru viðurkenningar og verðlaun til leikmanna, dómara og annarra sem sköruðu framúr á tímabilinu.
„Það er fínt að vera í Færeyjum næsta árið og sjá hvað kemur út úr því,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Neistans í Færeyjum.
Áfram verður Hafnfirðingurinn Finnur Hansson aðstoðarþjálfari með Arnari. Finnur hefur búið í Færeyjum um langt árabil og verið þjálfari ýmissa liða auk þess sem hann var á dögunum ráðinn aðstoðarþjálfari færeyska kvennalandsliðsins.