Arnór Atlason stýrði sínum mönnum í TTH Holstebro til öruggs sigurs á heimavelli í grannaslag við Mors-Thy í 10. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í kvöld, 41:33. Sigurinn færði Holsterbro upp í 5. sæti deildarinnar en Mors-Ty féll niður í þriðja sæti úr öðru vegna þess að GOG vann stórsigur á Ringsted á sama tíma.
Jóhannes Berg Andrason skoraði tvö mörk í þremur skotum fyrir TTH Holstebro og átti einnig tvær stoðsendingar.
Gríðarlega stemning var á grannaslagnum í Gråkjær Arena í Holstebro. Tæplega 3.000 áhorfendur troðfylltu áhorfendapallana en fyrir nokkru síðan var uppselt.
Guðmundur Bragi með sex mörk
Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði sex mörk í 11 skotum, þar af tvö úr vítaköstum, og var næst markahæstur hjá TMS Ringsted sem tapaði á 13 marka mun fyrir GOG, 36:23, á Fjóni. Ísak Gústafsson skoraði ekki mark fyrir Ringsted-liðið að þessu sinni. Ringsted féll niður um eitt sæti við tapið, í 12. sæti, ekki síst vegna þess að Fredericia, sem var í 13. sæti, lagði Sønderjyske, og færðist upp um fjögur sæti.
13 marka tap hjá Ribe-Esbjerg
Ribe-Esbjerg tapaði með 13 marka mun fyrir meisturum Aalborg Håndbold í Álaborg, 39:26. Elvar Ásgeirsson skoraði þrjú mörk fyrir Ribe-Esbjerg og átti eina stoðsendingu. Ágúst Elí Björgvinsson var ekki í leikmannahópi Ribe-Esbjerg sem er í 10. sæti af 12 liðum. Aalborg er efst með fullt hús stiga.




