Arnór Viðarsson og Tjörvi Týr Gíslason skoruðu eitt mark hvor þegar Bergischer HC vann Konstanz, 35:28, í 2. deild þýska handknattleiksins í kvöld. Með sigrinum treysti Bergischer HC stöðu sína í efsta sæti deildarinnar. Liðið hefur 38 stig eftir 24 leiki en á 10 viðureignir eftir. GWD Minden er í öðru sæti sex stigum á eftir og á leik til góða.
Arnór Þór Gunnarsson stýrði Bergischer HC að vanda í leiknum en liðið stefnir rakleitt upp í efstu deild á nýjan leik eftir eins árs fjarveru.
Daníel Þór Ingason og liðsmenn Balingen-Weilstetten unnu Lübeck-Schwartau, 29:28, á heimavelli í kvöld. Daníel Þór skoraði ekki mark en átti eina stoðsendingu. Balingen-Weilstetten komst upp í þriðja sæti með sigrinum í kvöld, stigi á eftir GWD Minden.
Elmar Erlingsson átti góðan leik fyrir Nordhorn-Lingen, skoraði fjögur mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Nordhorn tapaði á útivelli fyrir Hamm-Westfalen, 37:34. Nordhorn er í sjötta sæti.
Hákon Daði Styrmisson er ekki byrjaður að leika með Eintracht hagen og var þar af leiðandi ekki með í kvöld í 28:25 sigri Hagen-liðsins í heimsókn til Dessau. Hagen er í áttunda sæti.
Staðan í þýsku 2. deildinni: