- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aron Dagur færir sig um set innan Svíþjóðar

Aron Dagur Pálsson hefur skrifað undir samning við Guif. Mynd/Guif
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Aron Dagur Pálsson hefur skrifað undir eins árs samning við sænska úrvalsdeildarliðið Guif frá Eskilstuna. Hann kemur til liðsins eftir tveggja ára veru hjá öðru sænsku úrvalsdeildarliði, Alingsås.


„Það er gott að vera búinn að ganga frá næsta tímabili. Nokkur lið voru inni í myndinni en á endanum stóð valið á milli Guif og liðs í dönsku úrvalsdeildinni,“ sagði Aron Dagur við handbolta.is fyrir stundu.

Aron Dagur er 24 ára gamall og lék með Stjörnunni og Gróttu áður en hann gekk til liðs við Alingsås fyrir tveimur árum. Aron Dagur lék einnig með yngri landsliðum Íslands.


Guif hafnaði í áttunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á keppnistímabilinu 2020/2021 og féll út í 8-liða úrslitum fyrir Sävehof sem er á góðri leið með að verða sænskur meistari.


Fyrir er hjá Guif íslenski markvörðurinn Daníel Freyr Andrésson en í gegnum tíðina hafa nokkrir íslenskir handknattleiksmenn leikið með Guif. Má þar m.a. nefna bræðurna Kristján og Hauk Andréssyni, auk föður þeirra Andrésar Kristjánssonar, markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson og línumennina Atla Ævar Ingólfsson og Heimi Óla Heimisson. Kristján, sem er fyrrverandi landsliðsþjálfari Svía, þjálfaði Guif um árabil og er núverandi íþróttastjóri þess.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -