Aron Dagur Pálsson og félagar í Alingsås færðust upp í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í dag með fjögurra marka sigri á IFK Kristianstad, 34:30, á heimavelli. Þetta var aðeins annað tap Kristianstad á leiktíðinni en liðið er áfram efst með 16 stig að loknum 10 leikjum. Ystads IF og Alingsås koma þar rétt á eftir með 15 stig, Malmö 14 og Skövde 13, en Bjarni Ófeigur Valdimarsson gekk til liðs við Skövde í dag.
Alingsås var með tögl og hagldir í leiknum í dag og hafði m.a. fimm marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 18:13.
Aron Dagur átti frábæran leik fyrir Alingsås, skoraði fjögur mörk í átta skotum og átti sjö stoðsendingar. Ólafur Andrés Guðmundsson lék með IFK á nýjan leik eftir meiðsli. Hann skoraði þrjú mörk í sjö skotum og átti fjórar stoðsendingar. Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk í ellefu skotum en átti fimm stoðsendingar.
„Við náðum góðu forskoti á þá í fyrri halfeik og náðum að halda því allt til leiksloka,“ sagði Aron Dagur við handbolta.is eftir leikinn. „Markvarslan og vörnin var líka frábær hjá okkur allan leikinn. Sigurinn var mjög mikilvægur fyrir okkur í toppbaráttunni. Auk þess sem okkur vantar enn fjóra sterka leikmenn sem úti vegna meiðsla,“ sagði Aron Dagur. Hann var eðlilega ánægður með eigin frammistöðu. „Mér gekk vel að finna línumanninn okkar.“
Mikil leikjatörn stendur nú yfir hjá Alingsås. „Við spiluðum á síðasta miðvikudag, í dag og eigum svo útileik í Tyrklandi í Evrópudeildinni á þriðjudaginn, svo heimaleik í deildinni á fimmtudaginn og útileik á laugardaginn,“ sagði Aron Dagur Pálsson, handknattleiksmaður hjá Alingsås í Svíþjóð.