Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona eru komnir í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í handknattleik eftir öruggan sigur á Meshkov Brest frá Hvíta-Rússlandi, 40:28, í síðari leik liðanna í Barcelona í kvöld. Barcelona stóð afar vel að vígi eftir fjögurra marka sigur í Brest í síðustu viku og vann í tveimur leikjum, samtals 73:57.
Aron skoraði tvö mörk í kvöld og átti tvær stoðsendingar. Barcelona hefur þar með unnið allar átján viðureignir sínar í Meistaradeildinni á þessu keppnistímabili.
Franska liðið Nantes komst einnig í undanúrslit í kvöld þrátt fyrir tveggja marka tap fyrir Veszprém, 32:30, í Ungverjalandi. Nantes vann á heimavelli fyrir viku með fjögurra marka mun, 32:28.
Barcelona, Nantes, PSG og Aalborg taka þátt í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar í Köln 12. og 13. júní.