Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Bietigheim, reyndist löndum sínum í EHV Aue óþægur ljár í þúfu í dag þegar lið þeirra mættust í þýsku 2. deildinni. Aron Rafn varði 13 skot og var með ríflega 39% hlutfallsmarkvörslu í 11 marka sigri Bietigheim, 31:20, á heimavelli. Bietigheim er komið upp í 12. sæti deildarinnar með þessum sigri en EHV Aue situr í áttunda sæti sem fyrr með 23 stig, tveimur fleiri en Bieitigheim.
Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði eitt mark fyrir Aue og Sveinbjörn Pétursson varði 5 skot, 21% hlutfallsmarkvarsla á þeim 39 mínútum sem hann stóð á milli stanganna í marki liðsins. Rúnar Sigtryggsson er tímabundið þjálfari EHV Aue.
Dessau vann Emsdetten 36:34, í hinni viðureign 2. deildar í dag. Emsdetten er í 16. og fjórða neðsta sæti deildarinnar. Konstanz er stigi á eftir og á leik til góða á Emsdetten sem mun eiga von á ónefndum íslenskum handknattleiksmanni í sínar raðir fyrir næsta keppnistímabil samkvæmt heimildum handbolta.is.