- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aron Rafn og Adam afgreiddu daufa Mosfellinga

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Haukar fóru syngjandi sælir og glaðir heim úr Mosfellsbæ í kvöld með tvö kærkomin stig í farteskinu eftir sigur á Aftureldingu, 26:24, eftir jafna stöðu að loknum fyrri hálfleik, 14:14. Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður, varði allt hvað af tók í síðari hálfleik og dró tennurnar jafnt og þétt úr daufum leikmönnum Aftureldingar. Félagi Arons Rafns, Adam Baumruk gerði svo það sem þurfti á mikilvægum kafla í sókninni þegar leið nærri leikslokum. Mörk hans reyndust gulls ígildi þegar upp var staðið.


Aftureldingu tókst þar með ekki að komast upp að hlið FH í annað sæti deildarinnar. Enn skilja tvö stig liðin að. Haukum veitti hinsvegar ekki af stigunum þar sem Gróttumenn voru byrjaðir að anda ofan í hálsmálið á þeim og horfa löngunaraugum á áttunda sætið.


Aftureldingarliðið var mikið sterkara fyrstu 20 mínútur leiksins en tókst ekki að færa sér það almennilega í nyt. Brynjar Vignir Sigurjónsson varði eins berserkur meðan varla var varið skot hinum megin vallarins. Mosfellingar hefðu átt með réttu að vera fjórum mörkum yfir í hálfleik en þess í stað misstu þeir leikinn út úr höndum sér á síðustu mínútum fyrri hálfleiks og Haukar jöfnuðu.


Í síðari hálfleik vaknaði Aron Rafn til lífsins í markinu og sýndi gamalkunna takta. Sá hann um að draga máttinn úr Aftureldingarmönnum sem virtust þreytast. Haukar, sem e.t.v. skortir sjálfstraust eftir skrykkjótt tímabil, tefldu ekki á tvær hættur. Þeir þurftu þess með en náðu að nýta sér mistök Aftureldingar og vinna leik sem um skeið virtist ætla að enda með jafntefli.

Staðan í Olísdeild karla.

Mörk Aftureldingar: Árni Bragi Eyjólfsson 8, Gestur Ólafur Ingvarsson 4, Ihor Kopyshynskyi 4, Blær Hinriksson 3, Stefán Scheving Guðmundsson 2, Birkir Benediktsson 2, Einar Ingi Hrafnsson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 10, Jovan Kukobat 7.

Mörk Hauka: Adam Haukur Baumruk 6, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 5, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Heimir Óli Heimisson 3, Tjörvi Þorgeirsson 3, Andri Már Rúnarsson 2, Geir Guðmundsson 1, Össur Haraldsson 1, Birkir Snær Steinsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 16.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -