Aron Kristjánsson og leikmenn hans í landsliði Barein verða að vinna Belga, alltént að ná stigi, til þess að komast í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik. Í kvöld töpuðu Bareinar fyrir heimsmeisturum Dana með 15 marka mun í Malmö Arena í annarri umferð F-riðils, 36:21. Danir voru með tögl og hagldir í leiknum frá byrjun til enda eins og við mátti búast. Að loknum fyrri hálfleik var munurinn sjö mörk, 16:9.
Barein hefur eitt stig eftir leikina tvo eins og Túnis sem leikur við Dani á þriðjudagskvöld. Belgar hafa tvö stig eftir sigur á Túnis í kvöld, 31:29.
Mathias Gidsel skoraði níu mörk fyrir Dani gegn Barein og Simon Pytlick var næstur með fimm mörk.
Norðmenn standa afar vel að vígi eftir annan sigur sinn í F-riðli í Kraká, 32:21. Argentínumanna bíður hinsvegar hreinn úrslitaleikur við Norður Makedóníu á þriðjudaginn um sæti í milliriðlum en lið beggja þjóða eru stiglaus sem stendur. Sandor Sagosen, Sebastian Barthold og Magnus Rød skoruðu fimm mörk hver fyrir norska landsliðið.
Króatar kipptu Bandaríkjamönnum niður á jörðina með stórsigri á þeim í Jönköping, 40:22. Bandaríska liðið vann Marokkómenn í fyrstu umferð í jöfnum leik.
Katarbúar gerðu að mestu út um vonir Alsíringa um sæti í milliriðlum með því að leggja þá, 29:24, í Katowice. Katarar voru sterkari á lokasprettinum.
Staðan, úrslit og næstu leikir á HM.