Aron Pálmarsson landsliðsmaður í handknattleik var valinn íþróttakarl FH 2024 en að vanda stóð félagið fyrir hófi á gamlársdag þar sem valið fór fram. Frjálsíþróttakonan Irma Gunnarsdóttir varð fyrir valinu í kvennaflokki.
„Aron var algjör lykilleikmaður FH-liðsins á síðasta tímabili þegar liðið varð bæði Íslands- og deildarmeistari. Aron hlaut hinn eftirsótta Valdimarsbikar á lokahófi HSÍ en þann bikar hlýtur mikilvægasti leikmaður keppnistímabilsins. Aron var svo einnig kjörinn mikilvægasti leikmaður úrslitanna þegar FH tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn eftir sigur á liði Aftureldingar,“ segir í tilkynningu frá FH.
Ennfremur segir að heimkoma Arons til FH sumarið 2023 hafi verið gífurleg innspýting í félagið, ekki bara hvað meistaraflokkinn varðar heldur einnig í barna- og unglingastarfið þar sem Aron gaf mikið af sér til yngri iðkenda allan þann tíma sem hann var heima í FH og var ávallt tilbúinn að gefa af sér og aðstoða. Hann hóf leik með FH á núverandi tímabili en var seldur til ungverska stórliðsins Veszprém í byrjun nóvember.
Aron verður með íslenska landsliðinu sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu í handknattleik þegar líður á mánuðinn. Landsliðið kemur saman til fyrstu æfingar á morgun, 2. janúar.