Handknattleiksmennirnir Ásgeir Snær Vignisson hjá Víkingi og Bragi Rúnar Axelsson hjá Herði voru í dag úrskurðaðir í þriggja leikja bann hvor á fundi aganefndar HSÍ. Mál þeirra voru fyrst tekin fyrir í gær en afgreiðslu þeirra frestað þangað til í dag svo félögum þeirra gæfist kostur á að bera blak af þeim.
Ásgeir Snær braut af sér í viðureign Víkings og Fjölnis í Grill 66-deildinni síðasta föstudag. Brot hans kom inn á borð aganefndar fyrir tilstuðlan nýrrar málskotsnefndar en Ásgeiri var ekki gerð refsing fyrir brotið í fyrrgreindum leik.
Kastaði stól
Bragi Rúnar hljóp á sig í lok margumtalaðrar viðureignar ÍBV 2 og Harðar í fyrstu umferð Poweradebikarsins á mánudagskvöld. Mun hann hafa kastað stól í átt að leikmönnum ÍBV 2. Í greinargerð Harðar, sem send var aganefnd til varnar Braga Rúnari, er einnig að finna talsverða gagnrýni á framkvæmd leiksins og lýsingu atvika í skýrslu dómara.
„Hvað sem framkvæmd leiksins og öðrum atvikum líður, telur aganefnd liggja fyrir að umræddur leikmaður hafi með hegðun sinni undir lok leiks, komið fram með ódrengilegum hætti og falli brotið undir reglu 8:10 a). Með vísan til framangreinds er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í þriggja leikja bann,“ segir orðrétt í úrskurði aganefndar sem nánar má lesa í hlekk hér fyrir neðan.
Aganefnd HSÍ | Úrskurður 17.09. ’25