Frændþjóðirnar Danmörk og Noregur leika til úrslita á Evrópumóti kvenna í handknattleik á sunnudagskvöldið í Ljubljana í Slóveníu. Átján ár eru liðin síðan lið þjóðanna mættist síðast í úrslitaleik á stórmóti. Það var á EM í Ungverjalandi 2004 og hafði Noregur betur, 27:25.
Heims- og Evrópumeistarar Noregs risu upp á afturfæturna í kvöld og kjöldrógu Frakka í síðari hálfleik og unnu með átta marka mun, 28:20, í undanúrslitaleik.
Danir höfðu áður lagt Svartfellinga í hinni viðureign undanúrslitanna, 27:23, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir, 14:10, að loknum fyrri hálfleik.
Norska landsliðið endurtók leikinn frá úrslitaleiknum á HM í fyrra nema hvað þá voru yfriburðir Norðmanna mestir í fyrri hálfleik. Nú skinu gæðin í gegn í síðari hálfleik. Silje Solberg fór hamförum í marki Noregs og Stine Oftedal, sem oft hefur leikið betur en í þessari keppni, undirstrikaði þegar mest á reyndi af hverju hún er einn allra besta handknattleikskona sögunnar.
Úrslitaleikur Dana og Norðmanna hefst klukkan 19.30 á sunnudagskvöld. Klukkan sextán sama dag mætast Frakkar og Svartfellingar í leiknum um bronsverðlaunin.
Mörk Noregs: Nora Mørk 8, Stine Oftedal 7, Henny Ella Reistad 5, Vilde Ingstad 3, Sunniva Næs 2, Emilie Hovden 1, Thale Rushfeldt 1, Stine Skogrand 1.
Varin skot: Silje Solberg 14, 41% – Katrine Lunde 1, 100%.
Mörk Frakklands: Grace Zaadi 5, Chloe Valentini 4, Orlane Knor 3, Pauletta Foppa 3, Oceane Sercien 1, Coralie Lassource 1, Tamara Horacek 1, Pauline Coatanea 1, Estelle Nze Minko 1.
Varin skot: Cléopatre Darleux 7, 23% – Floriane Andre 2, 29%.
Mörk Danmerkur: Emma Cecilie Friis 7, Mie Højlund 6, Mette Tranborg 3, Kristina Jørgensen 2, Trine Østergaard 2, Louise Burgaard 2, Anne Mette Hansen 2, Rikke Iversen 1, Michala Møller 1, Kathrine Heindahl 1.
Varin skot: Sandra Toft 9, 30% – Althea Reinhardt 1, 33%.
Mörk Svartfjallalands: Itana Grbic 7, Djurdjina Jaukovic 7, Jovanka Radicevic 3, Milena Raicevic 2, Ivona Pavicevic 1, Matea Pletikosic 1, Djurdjina Malovic 1, Tatjana Brnovic 1.
Varin skot: Marina Rajcic 6, 23% – Marta Batinovic 0.