- Auglýsing -
- Auglýsing -

Átti ekki alveg von á þessum magnaða árangri

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs og þjálfari ársins í Olísdeild kvenna. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Tímabilið hefur verið ótrúlegt, maður er enn í skýjunum,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari ársins í Olísdeild kvenna, þegar handbolti.is hitti hann að máli eftir að Andri Snær hafði tekið við viðurkenningu sinni í uppskeruhófi HSÍ í hádeginu á miðvikudaginn. Undir stjórn Andra Snæs varð KA/Þór Íslandsmeistari í handknattleik kvenna í fyrsta sinn í vor, liðið varð einnig deildarmeistari í Olísdeildinni og hóf keppnistímabili á sigri í Meistarakeppni HSÍ.


„Ég er stoltur og mjög ánægður með þá góðu uppskeru sem við höfum fengið eftir þetta sérstaka tímabil,“ sagði Andri Snær sem sló svo sannarlega í gegn á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari A-liðs í meistaraflokki í efstu deild.


„Ég var með U-lið KA í karlaflokki í fjögur ár og hafði verið þjálfari yngri flokka um árabil en síðasta tímabil var það fyrsta hjá mér með meistaraflokk kvenna. Í hreinskilni sagt þá átti ég ekki alveg von á þessum magnaða árangri sem liðið náði þegar við byrjuðum að vinna saman á síðasta sumri.“

Ekki bara dans á rósum

„Ég hef lært mikið af þessu ári sem er að baki. Það var ekki eintómur dans á rósum. Eitt og annað kom upp, ýmis verkefni sem þurfti að leysa úr. En það hefur verið mjög gaman að þjálfa leikmenn sem hafa verið tilbúnir að leggja mikið á sig til að ná árangri,“ sagði Andri Snær sem nýtur eflaust góðs af því að vera þrautreyndur grunnskólakennari þegar kemur að þjálfun íþróttafólks og vera í samskiptum við það.

Alveg ný reynsla

„Ég hafði aldrei fyrr þjálfað stelpur eða konur. Áður hafði ég eingöngu tekið að mér þjálfun á drengjaflokkum. Það var því ný reynsla fyrir mig að koma inn í þennan hóp sem var og er afar vel skipaður leikmönnum sem voru tilbúnir að leggja mikið á sig til þess að ná árangri,“ sagði Andri Snær. Spurður hvort hann hafi orðið var við mikinn mun á að þjálfa konur og karla sagði hann svo ekki vera. Alltént væri munurinn ekki eins mikill og margir vilja vera að láta.

Ekki mikill munur

„Leikmenn KA/Þórs eru miklir naglar sem áttu það til að leika þrátt fyrir veikindi og meiðsli. Þær hörkuðu hvað sem af sér. Þar af leiðandi get ég ekki sagt að munurinn sé mikill,“ sagði Andri Snær sem horfir spenntur fram til næsta tímabils en í millitíðinni stendur til að nýta sumarið eins og kostur er á.

Liðið sem allir vilja vinna

„Okkur var spáð fimmta sæti í árlegri spá þjálfara og fyrirliða áður en mótið hófst í síðasta haust. Í september þegar keppni í Olísdeildinni hefst á ný reikna ég með að horft verði á okkur sem liðið sem allir vilja vinna. Í því felst áskorun sem gaman verður að glíma við,“ sagði Andri Snær sem sér ekki fram á miklar breytinga á leikmannahópnum. Unnur Ómarsdóttir hornamaður úr Fram bætist í hópinn en markvörðurinn Ólöf Maren Bjarnadóttir gengur til liðs við Hauka.

Stöðug þróun

„Hópurinn var í stöðugri þróun allt nýliðið keppnistímabil og sú þróun heldur áfram vegna þess að það er margt sem hægt er að bæta og laga. Meira að segja þegar komið var í úrslitakeppnina vorum við að gera breytingar á milli leikja. Það er því margt sem við getum gert til þess að styrkja þann hóp sem fyrir hendi er.“

Andri Snær Stefánsson, þjálfari deildarmeistara KA/Þórs, fer yfir stöðuna með leikmönnum sínum í einum af leikjum keppnistímabilsins. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Andri Snær var að lokum spurður hvaða þýðingu það hafi haft fyrir hópinn að fá jafn reynda og sterka handknattleikskonu og Rut Arnfjörð Jónsdóttur til liðsins á síðasta sumri en Rut hafði þá leikið með dönskum félagsliðum í 12 ár og m.a. orðið Evrópumeistari félagsliða og leikið í Meistaradeild Evrópu.

Kom með gæðin

„Það þarf engan sérfræðing til þess að sjá hversu stórkostlegur leikmaður Rut er. Hún gerir aðra leikmenn í kringum sig betri, er útsjónarsöm og klók og kann leikinn fullkomlega. Rut kom með þau gæði inn í hópinn sem aðrir leikmenn litu til. Hún hjálpaði okkur mjög mikið.


Sem dæmi má nefna að þegar Rut kom til liðs við okkur í fyrra þá varð öðrum leikmönnum liðsins það ljóst að þeir yrðu að komast í leikform lífs síns til þess að leika með Rut. Það hafa allir stigið stórt skref fram á við. Við þekkjum hvert það skilaði liðinu,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari ársins í Olísdeild kvenna og þjálfari Íslandsmeistara KA/Þórs.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -